Valur lagði Tindastól í oddaleik um titilinn að Hlíðarenda í gærkvöldi með 73 stigum gegn 60 og vann sinn fyrsta Íslandsmeistaratitil í 39 ár. Eftir langan og strangan vetur gat Finnur Freyr því í fyrsta sinn leyft sér að slaka aðeins á í dag og segir að spennan sé hægt og rólega að leka úr honum. Valsliðið efldist eftir því sem leið á veturinn og spilaði sína bestu leiki þegar mest á reyndi. Finnur Freyr segir það eðlilegt að lið séu í smástund að ná takti. Liðið hafi líka lent illa í covid og missti nánast af mánuði af æfingum, frá miðjum desember fram í miðjan janúar.
„Þannig að það var ógeðslega þungt. En svo einhvern veginn kemst einhver stígandi í þetta og náttúrulega í úrslitakeppninni þá einhvern veginn vindur þetta upp á sig.“
Titillinn í gærkvöldi var langt í frá sá fyrsti hjá Finni. Hann gerði KR fimm sinnum í röð að meisturum árin 2014-2018. Hann segir sitt hlutverk í Val þó hafa verið það léttasta, mesta þrekvirkið hafi það fólk unnið sem bar félagið uppi þegar á móti blés. Árangurinn sé þó ekki bara hægt að telja í titlum heldur verið líka að telja í hlutum eins og umgjörð leiksins í gær, menn eins og Ágúst Björgvinsson, Svali Björgvinsson og Lárus Blöndal, sem hafi haldið deildinni gangandi þegar á móti blés séu sannarlega að uppskera.
„Ég gerði það léttasta: að koma hérna, vera með frábærum leikmönnum og gera eitthvað sem ég hef gert áður. Það er auðvelt að vera flottur þegar allir klappa fyrir manni en þegar á móti blæs - það er árangur. Þannig að árangurinn er þeirra svona þegar maður fer að hugsa þetta meira.“
Viðtal við Finn má sjá í spilaranum hér efst á síðunni.