Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Apabólutilfelli í Portúgal og á Spáni

19.05.2022 - 00:30
Erlent · Heilbrigðismál · Afríka · Náttúra · apabóla · apar · bólusótt · Bretland · dropasmit · Kongó · Lissabon · Madrid · nagdýr · Portúgal · Spánn · Veirur · Evrópa · Tækni og vísindi
epa05559527 A capuchin monkey, an endangered species, grips a fence while at the rescue center for wild fauna at the National Zoo of Nicaragua in Managua, Nicaragua, 27 September 2016. The officials at the zoo have asked for help from local businessman in
 Mynd: EPA
Um það bil fjörutíu tilfelli af því sem talið er vera apabóluveira hafa greinst á Spáni og í Portúgal. Bretar greindu frá sjö tilfellum veikinnar í síðasta mánuði.

Smitin komu upp í höfuðborgum ríkjanna, um það bil tuttugu í og umhverfis Lissabon og þremur fleiri í Madrid. Í frétt norska ríkisútvarpsins af málinu kemur fram að í einhverjum tilfellum séu vísbendingar um að smit hafi borist við kynmök.

Það er nýlunda þar sem veiran berst yfirleitt með dropasmiti. Það gerist þegar smitaður einstaklingur hóstar, hnerrar eða snýtir sér og hraustur einstaklingur andar að sér dropum eða úða frá honum.

Heilbrigðisyfirvöld í Quebec-fylki í Kanada telja að apabóla sé komin upp þar. Bandaríkjamenn tilkynntu í gær að veiran hefði greinst í manni búsettum í Massachusetts-ríki, sem nýlega hafði ferðast til Kanada. Hann er sagður liggja á sjúkrahúsi en ástand hans talið nokkuð gott.

Almenningi er ekki sögð hætta búin. Heilbrigðisyfirvöld í borginni Montreal rannsaka nú þrettán möguleg tilfelli apabólu en niðurstaðna er að vænta á næstu dögum. 

Apabóla er landlæg í mið- og vestanverðri Afríku, einkum í Kongó, þar sem smit berast gegnum nagdýr eða apa. Sjúkdómurinn er náskyldur bólusótt sem var að mestu útrýmt í kringum 1980.

Apabóla er þó mun mildari sjúkdómur og sjaldan banvænn. Helstu einkennin eru útbrot í andliti sem loks dreifa sér um allan líkamann, hiti, vöðvaverkir og kuldaköst. Sjúklingar ná sér yfirleitt að fullu innan fárra vikna. 

Fréttin var uppfærð með upplýsingum um smit vestanhafs klukkan 5:35.