Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Úrvinda og gat ekki meira eftir álag á Landspítala

18.05.2022 - 19:10
Barnalæknir á Landspítalanum sem glímdi við kulnun eftir langvarandi álag í starfi segir að heilbrigðiskerfið verði að opna augun fyrir þeim afleiðingum sem það geti haft á starfsfólk og sjúklinga. Sjálfur hafi hann verið hættur að sofa og stundum varla munað eftir bílferðinni í vinnuna. Illa geti farið ef fólk fái ekki tækifæri til að stíga til hliðar og draga andann.

Barna- og svæfingalæknirinn Theódór Skúli Sigurðsson hefur haft sig mikið í frammi við að reyna að bæta aðstæður á Landspítalanum og var áberandi í fjölmiðlum sem formaður Félags sjúkrahússlækna. Hann dró sig síðan skyndilega í hlé og lét af störfum sem formaður. Ástæðan var langvarandi álag í starfi sem var farið að hafa áhrif á allt hans líf. 

„Maður fann það að maður var hættur að sofa, farinn að vakna á nóttunni og jafnvel farinn að drífa sig í vinnuna kannski snemma að morgni og stundum sem maður mundi kannski ekki eftir bílferðinni inn á spítala,“ segir Theódór.

Slökkti á símanum og hætti að hlusta á fréttir

Hann segist hafa verið kominn að algjörum þolmörkum og tók sér þriggja mánaða veikindaleyfi til þess að ná áttum - og eins og hann orðar það; til þess hreinlega að ná að draga andann. 

„Ég slökkti á símanum, hætti að hlusta á fréttir. Hætti að svara tölvupóstum og í raun gerði afskaplega lítið i byrjun, bara á meðan ég var að átta mig á tilverunni og hvað ég vildi gera í framhaldinu,“ segir hann. 

„Ég er Landspítalamaður og hef aldrei séð annað fyrir mér en að vinna á Landspítalanum en í þeim aðstæðum sem ég var allavega þurfti ég allavega að endurm ta þá lífsafstöðu, hvort ég ætlaði mér að vera áfram á Landspítalanum eða fara eitthvað annað. Mér fannst ég ekki vera að vinna þau verk sem ég hafði allavega stefnt að og þegar ég horfði til baka þá fannst mér ég koma afskaplega litlu í verk og það voru mikil vonbrigði.”

Theódór þurfti að velta því fyrir sér hvort hann vildi áfram starfa á Landspítalanum. Álagið þar aukist sífellt og að heimsfaraldurinn hafi nánast keyrt starfsfólk í þrot.

„Ég sem hef alltaf brunnið fyrir vinnuna og hugsjón að vera læknir mætti í vinnuna og fann afskaplega litla gleði við að mæta í vinnuna. Og það kom mér mjög mikið á óvart því það var algjörlega nýtt fyrir mér. Og hafði ekki kynnst því áður á ferlinum.“

Heilbrigðiskerfið opni augun

Theódór segist ekki vera einn í þessari stöðu og kallar eftir því að heilbrigðiskerfið opni augun fyrir afleiðingum viðvarandi álags og streitu, annars geti hlutirnir farið illa. 

„Ég þekki það í kringum mig og úti í heimi þar sem nánir vinir hafa valið leiðir sem því miður eru óafturkræfar,“ segir hann. 

„Og ég skynja það í kringum mig dagsdaglega, það eru margir í sömu sporum og ég var fyrir áramót. Maður hefur áhyggjur af því hvaða afleiðingar þetta hefur á fólkið sjálft, á starfsfólkið. En líka hvernig þetta smitar út frá sér í umhverfið og inni á spítalanum og mikilvægt að grípa inni í þetta og starfsfólkið áður en illa fer.“

Þá sé ekki síður mikilvægt að starfsfólk hugi hvert að öðru. „Að við spyrjum fólk hvernig því líði. Hvort það sé allt í lagi og að það séu úrræði innan spítalans að grípa fólk þegar það er svona upp á að geta komið  í veg fyrir að að það verði einhverjar uppákomur, “ segir Theódór og bendir á að mikið álag ógni öryggi bæði starfsfólks og sjúklinga.

Theódór kom nýverið aftur til starfa á spítalanum eftir samtöl við stjórnendur um hóflegri kröfur. Hann segist endurnærður og finnur loks aftur fyrir gleðinni sem hann hafði tapað. 

„Ég náði að vinna úr þessu, ég tók mér þriggja mánaða veikindaleyfi og vann í mínum málum. Bæði hvað varðar mig sjálfan og mínar væntingar og kröfur til míns sjálfs og allra annarra sem var eitthvað sem ég þurfti að taka aðeins til í. En líka gaf þetta mér tækifæri til að ræða við minn yfirlækni um vinnuna og skipulag vinnunnar sem var mjög gott og hann tók vel í það samtal.”

Læknastarfið er köllun

Aðspurður segist hann aldrei ætla að gefast upp á því að vera læknir. Enda sé starfið miklu meira en aðeins lifibrauð. 

„Þetta er köllun. Þetta er einfaldlega köllun. Þetta er afskaplega skemmtilegt starf. Mjög gefandi að vera læknir heilbrigðisstarfsmaður. En stundum gleymum við okkur í amstri hins daglega lífs, streitunni og öllu því og horfum til baka og áttum okkur á því að við erum að vinna þarft verk og mikilvægt verk og það er mjög gefandi. En maður stundum tapar fókusnum þegar maður er alltaf þreyttur,” segir Theódór.

Þá ætlar hann að halda áfram að berjast fyrir betri Landspítala. „Ég mun aldrei hætta því,” segir Theódór. Hann segist hafa ákveðið að segja sína sögu til að hjálpa öðrum sem eru á sama stað og sjá jafnvel enga framtíð lengur. 

 

sunnaks's picture
Sunna Karen Sigurþórsdóttir
Fréttastofa RÚV