Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Íbúafundur í Grindavík annað kvöld um umbrotin

Mynd með færslu
 Mynd: Slysavarnafélagið Landsbjörg
Boðað hefur verið til íbúafundar annað kvöld um jarðhræringarnar kringum bæinn. Ekkert lát er á þeim. Vísindráð Almannavarna fundaði í gær um ástandið á Reykjanesskaga.

Ekki er nema von að boðað sé til íbúafundar, Grindvíkingar eru líklega orðnir langþreyttir. Á fundinn koma jarðvísindamenn. 

Jarðskjálfti af stærðinni 2,8 varð laust fyrir klukkan tíu í morgun tvo kílómetra norðnorðvestur af Grindavík. Skjálftinn fannst í bænum. Í nótt varð skjálfti, 3,5, einnig ekki langt frá Grindavík og annar þrír að stærð. Hundruð skjálfta hafa mælst á svæðinu að undanförnu. 

Vísindaráð birtir tilkynningu í dag um niðurstöðu fundarins. Almannavarnir lýstu yfir óvissustigi vegna hrinunnar á Reykjanesskaga á sunnudaginn, daginn eftir öflugasta skjálftann í þessari hrinu. Sá varð í Þrengslum og mældist 4,8. 

Landris í Eldvörpum skammt frá HS Orku og Bláa lóninu nemur nokkrum sentimetrum. Kvika hefur safnast þar fyrir á fimm kílómetra dýpi. Í umbrotunum í fyrra gerðist það sama en ekki gaus þar heldur í Geldingadölum. 

Talið er að stærstu skjálftar á Reykjanesskaga yrðu í Brennisteinsfjöllum austur af Kleifarvatni. Vísindamenn bentu á í fyrra að engir skjálftar hefðu fundist milli Kleifarvatns og Bláfjalla. Það gæti verið vísbending um að það svæði sé læst, sagði þá á vef Veðurstofunnar, og að það losni ekki um spennu þar fyrr en í stærri skjálfta. Enn hefur ekki orðið stór skjálfti þar. Þannig að enn má gera ráð fyrir stórum skjálfta í Brennisteinsfjöllum. Sá gæti orðið af stærðinni sex. Svo stórir skjálftar hefðu töluverð áhrif á höfuðborgarsvæðinu.