Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Fordæma ný lög um dauðarefsingar í Hvíta-Rússlandi

18.05.2022 - 17:38
epa09950832 Belarus' President Alexander Lukashenko attends a meeting of the leaders of the Collective Security Treaty Organization (CSTO) member states at the Kremlin in Moscow, Russia, 16 May 2022. Moscow is hosting the CSTO summit, timed to coincide with the 30th anniversary of the signing of the Collective Security Treaty and the 20th anniversary of the creation of the Organization, which includes Armenia, Belarus, Kazakhstan, Kyrgyzstan, Russia and Tajikistan.  EPA-EFE/ALEXANDER NEMENOV / POOL
 Mynd: EPA-EFE - AFP POOL POOL
Bandaríkjastjórn fordæmir nýja dauðarefsingalöggjöf í Hvíta-Rússlandi. Forseti landsins hefur undirritað lög sem heimila að dauðarefsingu sé beitt gegn hryðjuverkamönnum.

Hvíta-Rússland er eina Evrópuríkið sem ekki hefur afnumið dauðarefsingar. Ríkisstjórn Alexanders Lúkasjenka forseta hefur nú útvíkkað lög um dauðarefsingar og í lok mánaðar verður einnig heimilt að beita refsingunum gegn þeim sem hafa verið dæmdir fyrir að skipuleggja eða fremja hryðjuverk.

Stjórnarandstæðingar hafa gagnrýnt nýju lögin af hörku og það hefur Bandaríkjastjórn gert sömuleiðis. Antony Blinken utanríkisráðherra sagði lögin ekki snúast um hryðjuverkamenn heldur lýðræðissinna og andstæðinga innrásarinnar í Úkraínu. Sagði hann 1.100 pólitíska fanga í landinu og að margir þeirra hefðu verið sakaðir um hryðjuverk.

Í því samhengi er vert að taka fram að Svíatlana Tsíkanúskaja, sem bauð sig fram gegn Lúkasjenka í afar umdeildum forsetakosningum árið 2020 en er nú í útlegð, var sökuð um að skipuleggja hryðjuverk. Fjöldamótmæli spruttu upp um land allt vegna kosninganna og var Lúkasjenka sakaður um kosningasvindl.

Mannréttindabaráttusamtökin Vyasna segja réttað yfir tólf stjórnarandstæðingum í borginni Grodno um þessar mundir. Þeir eru allir sakaðir um hryðjuverk.

Þórgnýr Einar Albertsson