Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Árný Margrét kemur fram á Newport Folk Festival

Mynd með færslu
 Mynd: Jóhannes Jónsson - RÚV/Landinn

Árný Margrét kemur fram á Newport Folk Festival

18.05.2022 - 13:51

Höfundar

Söngkonan unga Árný Margrét mun troða upp á Newport-tónlistarhátíðinni í Rhode Island-ríki í júlí. Hátiðin er ein sú nafntogaðasta í tónlistarheiminum. Þetta er í fyrsta sinn sem Árný Margrét er bókuð á tónlistarhátíð í Bandaríkjunum.

Árný Margrét hefur vakið verðskuldaða athygli að undanförnu fyrir þjóðlagatónlist sína. Smáskífur hennar, Akureyri og intertwined, bera merki um þroskaða lagasmíð þrátt fyrir ungan aldur, en hún er rétt liðlega tvítug að aldri.

Árný Margrét var tilnefnd sem bjartasta vonin í íslenskri tónlist á nýafstaðinni verðlaunahátíð ÍSTÓN, en hljómsveitin FLOTT hreppti þó verðlaunin að þessu sinni. 

Lög Árnýjar hafa verið spiluð á Rás 2 reglulega í nokkrar vikur og njóta þónokkurrar hylli meðal hlustenda. 

Söguleg hátíð

Unnendur tónlistarsögu ættu að kannast vel við Newport-þjóðlagahátíðina. Gestir hátíðarinnar árið 1965 urðu vitni að einum merkasta viðburði nútímatónlistarsögu þegar Bob Dylan, þá án efa vinsælasti þjóðlagasöngvari heims, lék nýja tónlist á rafmagsngítar. Lögum eins og Maggie's Farm og Like A Rolling Stone var ekki vel tekið og hátíðargestir púuðu einhverjir hátíðargesta á Dylan. Sagan segir að Pete Seeger, einn vinsælasti þjóðlagasöngvari síns tíma, hafi ætlað að klippa á kaplana sem tengdu saman hljóðkerfið með öxi. 

Auk þessa er jafnan talið að bandaríski söngvarinn Kris Kristofferson hafi verið uppgötvaður á hátíðinni, ef svo má að orði komast. Árið 1969 fékk þungavigtartónlistarmaðurinn Johnny Cash Kristofferson með sér upp á svið og vann hann hylli hátíðargesta með því. 

Þá er ótalinn órafmagnaður flutningur hljómsveitarinnar Pixies á hátíðinni árið 2005. Pixies nutu þá vinsælda og virðingar fyrir að hafa greitt götu jaðarrokksins sem tröllreið tónlistarbransanum um aldamótin. Heimildarmynd var meðal annars gerð um framkomu Pixies á Newport-hátíðinni árið 2005.