Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Tilkynningum um nauðganir fjölgaði um fimmtung

Mynd með færslu
 Mynd: Eggert Þór Jónsson - RÚV
Alls voru 176 kynferðisbrot tilkynnt til lögreglu fyrstu þrjá mánuði ársins. Lögreglunni á landsvísu bárust 610 tilkynningar um heimilisofbeldi og ágreinings milli skyldra eða tengdra aðila þessa þrjá mánuði, sem jafngildir sjö slíkum tilkynningum á dag. Um er að ræða 19 prósenta aukningu samanborið við síðustu þrjú ár þar á undan.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Lögreglu, en þar segir einnig að tilkynningum um heimilisofbeldi fækkaði á höfuðborgarsvæðinu á milli ára en fjölgaði á landsbyggðinni.

Samkvæmt tölulegum upplýsingum lögreglunnar eru flest tilvik heimilisofbeldis, eða tvö af hverjum þremur málum, af hendi maka eða fyrrverandi maka.

Í um fjórðungi heimilisofbeldismála er um að ræða fjölskyldutengsl, svo sem ofbeldi á milli barna og foreldra og hafa slíkum málum hefur fjölgað undanfarin ár. Bæði þar sem foreldrar beita börn sín ofbeldi og öfugt.

64 tilkynningar sem falla undir „önnur kynferðisbrot“

Alls voru 176 kynferðisbrot tilkynnt til lögreglu fyrstu þrjá mánuði þessa árs, eða 6 prósent fleiri brot en voru skráð að meðaltali á sama tímabili síðustu þrjú árin á undan.

Lögreglu bárust 59 tilkynningar um nauðganir fyrstu þrjá mánuði ársins, sem samsvarar tæpri 17 prósenta fjölgun frá meðaltali á sama tímabili þrjú ár á undan.

39 tilkynningar um kynferðisbrot gegn börnum bárust lögreglu og eru þau fleiri en fyrri ár. Blygðunarsemisbrot voru fjórtán talsins sem er fækkun frá síðustu árum.

Lögreglu bárust 64 tilkynningar sem falla undir „önnur kynferðisbrot“ og er þá í flestum tilvikum um að ræða stafræn kynferðisbrot eða kynferðislega áreitni.