
Óskar ekki eftir upplýsingum um rannsókn á Samherjamáli
Eyjólfur Ármannsson, þingmaður Flokks fólksins, lagði fram fyrirspurn í sex liðum um rannsókn héraðssaksóknara.
Eyjólfur þekkir vel til rannsókna efnahagsbrotamála en hann var aðstoðarsaksóknari í efnahagsbrotadeild ríkislögreglustjóra um fjögurra ára skeið.
Eyjólfur vildi til að mynda vita hversu lengi rannsóknin hefði staðið og hvort skýrslutökum og gagnaöflun væri lokið. Þá óskaði hann eftir upplýsingum um hversu margar skýrslur hefðu verið teknar, hvort málið væri komið í ákærumeðferð og hvenær mætti vænta þess að rannsókn lyki.
Jón Gunnarsson, dómsmálaráðherra, segir í svari sínu að dómsmálaráðherra geti óskað eftir upplýsingum um stöðu einstakra mála og hvernig rannsókn þeirra miði með einum eða öðrum hætti. Ákvæði þessi efnis hafi þó alltaf verið beitt af mikilli varfærni og í algerum undantekningartilvikum „enda eru afar fá tilvik þar sem til skoðunar hefur komið að beita því og því verið beitt.“
Jón segist einnig telja að fyrirspurn þingmanns geti ekki verið grundvöllur þess að ráðherra beiti þessu ákvæði og óski eftir upplýsingum um stöðu rannsóknar á einstöku sakamáli. Hann ætli því ekki að óska eftir þeim upplýsingum sem þingmaðurinn bað um.