
Gaf sig fram eftir að hafa keyrt á álftina
RÚV greindi frá því í gær að karlfuglinn hafi legið skotinn í vegkantinum, líklega efir 22 kalibera riffil. Kvenfuglinn hafi verið einn á tjörninni, en parið átti egg í hreiðri í sefinu við veginn. Þessar álftir hafa komið á tjörnina á hverju ári og glatt margan vegfarandann, og óskaði lögreglan á Austurlandi eftir upplýsingum frá almenningi ef einhver vissi meira um málið.
Í tilkynningu lögreglu í dag segir að vegna rannsóknar málsins og gruns um skotáverka var dýralæknir í gær fenginn til að meta hvað orðið hafi álftinni að aldurtila, en um friðaðan fugl er að ræða. Hans niðurstaða eftir skoðun var að áverkar væru þess eðlis að ekið hafi verið á hana, og nú hefur ökumaður gefið sig fram, en honum láðist að tilkynna atvikið.
„Lögregla vill vegna þessa atviks árétta við ökumenn að þeir gæti að hraða ökutækja sinna og hugi þannig meðal annars að öryggi dýra við veg,“ segir í tilkynningu lögreglu.