Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Tengja sig saman en útilokar ekkert í pólitík

16.05.2022 - 14:23
Mynd með færslu
 Mynd: Arnar Páll Hauksson
Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, oddviti Viðreisnar í Reykjavík, segir það ekki hafa verið erfiða ákvörðun að Viðreisn, Samfylking og Píratar, skyldu hafa ákveðið að fylgjast að næstu daga í viðræðum um nýjan meirihluta. 60 prósent kjósenda í Reykjavík hafi annars vegar lýst yfir stuðningi við samgöngusáttmálann sem snúist um annað og meira en borgarlínu heldur líka skipulagsmál og loftslagsmál og svo uppbyggingu íbúðarhúsnæðis.

Dagur B. Eggertsson, oddviti Samfylkingarinnar, greindi frá því í Morgunútvarpinu á Rás 2 í morgun að hann, Dóra Björt Guðjónsdóttir og Þórdís Lóa Þórhallsdóttir hefðu ákveðið að vera í óformlegu bandalagi næstu daga þegar viðræður hefjast um nýjan meirihluta.  

Í framhaldinu var haft eftir Þórdísi Lóu á mbl.is að þrátt fyrir bandalagið útilokaði hún ekki meirihlutasamstarf til hægri. Þórdís tekur fram í samtali við RÚV að samflotið við Samfylkingu og Pírata sé fyrsti kostur.

Að sjálfsögðu treysti Viðreisn sér til að vinna með öllum og hún útiloki ekkert í pólitík. „Þetta er líka sá tími þar sem allir eru að tala saman og fólk er að fá umboð frá sínu baklandi.“

Hún segir að framundan séu stór verkefni eins og samgöngusáttmálinn og uppbygging húsnæðis. Einhverjar tafir á þeim geti haft alvarlegar afleiðingar fyrir samfélagið.   

Þórdís segir ekkert undarlegt við það að núverandi meirihluti hafi komið saman til fundar til að fara yfir stöðuna. Kjörtímabilinu ljúki ekki fyrr en eftir tvær vikur og framundan séu bæði fundir í borgarstjórn og borgarráði.