Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Styttist í formlegar viðræður á höfuðborgarsvæðinu

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Framsókn í Hafnarfirði mun gera meiri kröfur en síðast verði meirihlutasamstarf við Sjálfstæðisflokk endurnýjað. Bæjarstjórastóllinn hafi verið nefndur en sé ekki forgangsmál. Framsóknarmenn í Mosfellsbæ ákveða í kvöld við hverja verður byrjað að ræða um nýjan meirihluta.

Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur mynda núverandi meirihluta  í Hafnarfirði. Sjálfstæðisflokkurinn missti einn mann í kosningum, er með fjóra, en Framsóknarflokkur bætti við sig manni og er með tvo. Framsóknarflokkurinn er í lykilstöðu um hvort að núverandi meirihlutasamstarf haldi áfram eða hvort þeir hleypa Samfylkingunni inn í nýjan meirihluta. 

„Við sögðum allan tímann í kosningabaráttunni að ef meirihlutinn myndi halda velli, sem hann gerði og samstarfið gekk vel, þá myndum við byrja á að ræða við samstarfsflokk okkar til fjögurra ára og það munum við byrja á að gera í vikunni,“ segir Valdimar Víðisson oddviti Framsóknarflokksins í Hafnarfirði.

Því verður beðið með að ræða við Samfylkinguna að sinni. Valdimar segir að meiri vinna verði lögð í undirbúning viðræðnanna núna en fyrir fjórum og í ljósi þess að bæjarfulltrúum flokksins hafi fjölgað verði gerðar meiri kröfur í viðræðunum.

„Við munum klárlega koma með meiri kröfur inn í það samtal, já, sem snýr sérstaklega að málefnavinnunni en einnig hvernig strúktúrinn verður með skipan í nefndir og ráð.“

Eruð þið að kalla eftir bæjarstjórastólnum?

„Bæjarstjórastóllinn hefur verið nefndur en við förum ekki með það sem forgangsmál, en vissulega erum við tilbúin og munum að sjálfsögðu ræða það líka við samstarfsaðila.“

Og í Mosfellsbæ er flokkurinn líka í lykilstöðu varðandi meirihlutamyndun því hann fór frá því að vera með engan bæjarfulltrúa fyrir fjórum árum yfir í að vera stærsti flokkurinn með fjóra bæjarfulltrúa. Óformlegar þreifingar eru þegar hafnar að sögn oddvita Framsóknarflokksins og klárt sé að rætt verði við fulltrúa allra flokka. Línur ættu að skýrast strax í kvöld þótt niðurstaða liggi ekki fyrir.

„Kannski liggur ekki fyrir strax í kvöld en það liggur kannski fyrir við hverja við ætlum að fara að hefja miklar viðræður, nú erum við bara að máta okkur og tala saman,“ segir Halla Karen Kristjánsdóttir oddviti Framsóknarflokks í Mosfellsbæ.

Hún segir stefnumálin svipuð hjá flokkunum, en munurinn liggi frekar í fólkinu og leiðunum að markmiðunum. Hún telur samstöðu og fjölhæfni í flokknum og að frambjóðendur eru vel þekktir í bæjarfélaginu vera líklega skýringu á því stóra stökki sem flokkurinn tók frá síðustu kosningum. Hún segir að í stefnuskrá flokksins segi að ráðinn verði ópólitískur bæjarstjóri, sem gæti breyst eftir því hvernig viðræður þróast.

„En það er spurning eftir því með hverjum við förum að vinna hvað við þurfum að gera, þannig að ég ætla að halda því aðeins opnu.“

Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur mynda núverandi meirihluta í Kópavogi. Orri Hlöðversson oddviti Framsóknarflokksins segir að aðeins hafi verið rætt við Sjálfstæðisflokkinn enn sem komið er, en á óformlegan hátt. Það ætti að skýrast annað kvöld hver staðan verði.

 

 

holm's picture
Haukur Holm
Fréttastofa RÚV