Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Óþol á átakastjórnmálum skýri Framsóknarsveiflu

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Framsóknarflokkurinn sópaði til sín atkvæðum í nýafstöðnum sveitarstjórnarkosningum og tvöfaldaði fylgið á landsvísu frá því kosið var til sveitarstjórna árið 2018. Fulltrúar flokksins um land allt eru nú 67, en voru 22 á síðasta kjörtímabili. 

Eiríkur Bergmann, prófessor við Háskólann á Bifröst, telur óþol á átakastjórnmálum samtímans helstu skýringu á Framsóknarsveiflunni, ásamt þeirri umbreytingu sem flokkurinn hefur gengið í gegnum á nýliðnum árum.

Mikil breyting hafi orðið á ímynd og ásýnd flokksins frá og með síðustu þingkosningum og þessi árangur sé framhald á þeirri þróun. Mesta athygli veki hvað flokknum takist vel upp á Höfuðborgarsvæðinu.

Ekki lengur nátttröll

„Flokkurinn var orðinn nánast hreinræktaður landsbyggðarflokkur og kannski einhverjir sem voru farnir að tala um hann sem nátttröll í íslenskum stjórnmálum sem myndi daga uppi og ekki eiga erindi í samtímanum. En flokkurinn hefur algjörlega afsannað þetta og umbreyst,“ segir Eiríkur. 

Eftir ólgusjó í kjölfar hrunsins, mannabreytingar í forystunni og uppgjör innan flokksins hafi ný vegferð hafist undir stjórn núverandi formanns, Sigurðar Inga Jóhannssonar.

„Svo finnst manni að Framsóknarflokkurinn hafi náð að setja puttann á púlsinn, hann hefur náð að tengja sig inn í straum í stjórnmálunum, því það er töluvert margt fólk sem hefur fyllst óþoli á átakastjórnmálum samtímans, rætinni pólitík, öfgum og harðri afstöðu.“

Framsókn hafi þannig komið fram sem flokkur sátta og samvinnu. Nýtt fólk hafi einnig haft áhrif á ásýndina og þessi gamalgróni stjórnmálaflokkur hafi fengið á sig ferskan andblæ.

Áfram flokkur landsbyggða

Eiríkur segir þetta ekki tækifærismennsku hjá flokknum, enda liggi rætur hans í samvinnuhugsjóninni og hófstilltri framgöngu á vettvangi stjórnmála. Flokknum hafi nú tekist að færa sig yfir á mölina, en leiðin í bæinn hafi lengi þótt torfær.

Flokkurinn muni þó vafalaust áfram leggja áherslu á að vera flokkur landsbyggða, þótt honum hafi tekist að teygja sig til höfuðborgarinnar með góðum árangri í sveitarstjórnarkosningunum á laugardag.

Rætt var við Eirík Bergmann í Morgunútvarpinu á Rás 2 í morgun.