Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Gera tilkall til bæjarstjórastóls í Kópavogi

Mynd með færslu
 Mynd: Eddi - RÚV
Ásdís Kristjánsdóttir, oddviti Sjálfstæðisflokksins í Kópavogi, segir að fyrsta skref eftir kosningarnar sé að kanna hvort grundvöllur sé fyrir áframhaldandi meirihlutasamstarfi með Framsóknarflokknum. Sjálfstæðismenn geri tilkall til bæjarstjórastólsins.

Rætt var við Ásdísi í Morgunútvarpinu á Rás 2. 

Hefja viðræður með Framsóknarflokki

Sjálfstæðisflokkur fékk fjóra bæjarfulltrúa, Framsóknarflokkur og Vinir Kópavogs tvo hvor og Viðreisn, Píratar og Samfylking einn hver í kosningunum á laugardag. Ásdís segir það hafa verið vonbrigði að hafa misst fimmta mann flokksins í bæjarstjórn. „Jú, auðvitað er það það. Markmið okkar var alltaf að halda okkar fimmta manni inni. En þetta er niðurstaðan og við erum áfram langstærsti flokkurinn í Kópavogi.“

Meirihluti Sjálfstæðisflokks og Framsóknar hélt í Kópavogi. „Það blasir við að það verði fyrsta skref að kanna hvort það er grundvöllur til að við getum haldið áfram að starfa sem meirihluti. Það má segja að þessar viðræður eru óformlega hafnar.“

Viðræður hafi ekki byrjað fyrir kosningar. „Nei, við gengum bara óbundin til kosninga og þær viðræður voru ekki hafnar og eru í raun ekki hafnar. Þetta eru bara samtal á milli mín og oddvita Framsóknar en við vorum sammála um að skoða þetta enn frekar og huga að því hvort að við náum ekki saman. Áherslur okkar eru áþekkar, þannig að það er eðlilegt næsta skref að við skoðum þennan möguleika.“ 

Ásdís segir Sjálfstæðismenn gera tilkall til bæjarstjórastólsins. „Við lítum svo á að við erum langstærsti flokkurinn í Kópavogi og við munum þess vegna gera tilkall til þess að halda bæjarstjórastólnum. En þetta er auðvitað bara samtal sem er framundan.“

Vill aukið samráð við bæjarstjóra

Vinir Kópavogs fengu fleiri atkvæði en Framsóknarflokkurinn. Ásdís sagði aðspurð að það verði skoðað hvort meirihlutasamstarf með þeim komi til greina. Framboðið Vinir Kópavogs hafi verið stofnað vegna óánægju með skipulagsmál í bænum. „Þetta er eitthvað sem við munum horfa til, sérstaklega í þeim viðræðum sem eru framundan. Við þurfum að huga að því hvernig við getum skapað aukna sátt og samstöðu meðal bæjarbúa í þeim þéttingarverkefnum sem eru framundanu. Við munum leggja ríka áherslu á að það verði aukið samráð við bæjarbúa.“ 

Spennandi verkefni séu framundan. Takmarkað landrými sé í sveitarfélaginu og því þurfi að þétta byggð og skapa þannig tækifæri fyrir fleiri til að búa í Kópavogi.  

Vill óháða úttekt á Borgarlínuverkefninu

Aðspurð um afstöðu til Borgarlínu segir Ásdís Sjálfstæðismenn styðja greiðari og skilvirkari samgöngur. „En samt sem áður blasir við að það ríkir ákveðin óvissa og einhver óánægja í Kópavogi um það hvar Borgarlínan mun liggja. Svo er ekki alveg öllum spurningum svarað um hvernig við ætlum að fjármagna Borgarlínuna og hvernig verður komið að rekstrinum. Þannig að mér fínnst eðlilegt fyrsta skref sem nýr oddviti Sjálfstæðisflokksins og vonandi bæjarstjóri að við horfum bara heilstætt á verkefnið og fáum utanaðkomandi óháðan aðila til að fara yfir þetta og athuga hvort við séum ekki örugglega að fara raunhæfustu og ábyrgustu leiðina í þessum efnum.“

Ásdís segist ekki geta sagt til um að svo sé og vilji fá ráðgjafa að borðinu. „Við erum í fyrsta hönnunarstigi af þremur og ég skynja það að á ákveðnum svæðum ríkir óvissa og óánægja um það hvar Borgarlína á að liggja.“

Bregðast þurfi við þyngri umferð á höfuðborgarsvæðinu sem flestir íbúar hafi orðið varir við.  „Við þurfum auðvitað eitthvað að gera og það þarf að fjárfesta í almenningssamgöngum svo þetta sé raunhæfur ferðamáti fyrir fleiri bæjarbúa.“

asrunbi's picture
Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV