Emmanuel Macron Frakklandsforseti hefur skipað Elisabeth Borne í embætti forsætisráðherra.
Borne er nú vinnumálaráðherra og verður fyrsta konan til að leiða franska ríkisstjórn í rúma þrjá áratugi, segir í tilkynningu frá forsetaembættinu.
Fyrir lá að Jean Castex myndi láta af embættinu eftir sigur Macrons í forsetakosningum í apríl. „Tími minn í landsmálunum er liðinn,“ sagði hann við Le Monde um helgina.
Borne er þriðji forsætisráðherra Macrons og sá fyrsti sem telst vinstra megin við miðju. Áður hafði forsetinn valið tvo íhaldsmenn í embættið.
Edith Cresson var síðasta, og reyndar fyrsta, konan í starfi forsætisráðherra. Það var árin 1991 til 1992 í forsetatíð Francois Mitterand.