Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Meirihlutar héldu í flestum stærstu sveitarfélögunum

Mynd með færslu
 Mynd: Karitas Jónsdóttir
Meirihlutar héldu flestir velli í stærstu sveitarfélögum landsins. Í Mosfellsbæ féll meirihluti Sjálfstæðisflokks og Vinstri grænna eftir stórsigur Framsóknarflokksins og í Árborg náði Sjálfstæðisflokkurinn aftur vopnum sínum.

Í Hafnarfirði hélt meirihluti Framsóknar og Sjálfstæðisflokks sem má þakka því að Framsóknarflokkurinn jók fylgi sitt og fór úr einum bæjarfulltrúa í tvo.

Sjálfstæðisflokkurinn missti einn bæjarfulltrúa, fer úr fimm í fjóra en Samfylkingin undir forystu Guðmundar Árna Stefánssonar, fyrrverandi bæjarstjóra og ráðherra, vann kosningasigur, fer úr tveimur bæjarfulltrúum í fjóra. Viðreisn hélt sínum manni en aðrir flokkar náðu ekki kjöri.

Svipaða sögu var að segja úr Kópavogi. Þar hélt meirihluti Framsóknar og Sjálfstæðisflokks þar sem Framsóknarflokkurinn bætti við sig manni, fór úr einum í tvo en Sjálfstæðisflokkurinn missti einn, fór úr fimm í fjóra.

Viðreisn, Píratar og Samfylkingin fengu öll einn bæjarfulltrúa hver en sigurvegari kosninganna var hið nýja framboð Vinir Kópavogs sem hlaut tvo bæjarfulltrúa. Hvorki Miðflokkurinn né VG náðu kjöri.

Í Reykjanesbæ hélt meirihluti Framsóknarflokks, Beinnar leiðar og Samfylkingar velli. Samfylking og Framsókn fengu þrjá bæjarfulltrúa hvor og Bein leið einn. Sjálfstæðisflokkurinn fékk þrjá menn kjörna og og Umbót einn.

Á Akureyri er allt útlit fyrir að meirihlutaviðræðurnar verði býsna flóknar. Þar náðu sjö flokkar kjöri. Bæjarlisti Akureyrar er stærsti flokkurinn með þrjá bæjarfulltrúa, Framsókn og Sjálfstæðisflokkur fengu tvo, Flokkur fólksins náði inn einum manni eins og Samfylkingin, Vinstri hreyfingin grænt framboð og Miðflokkurinn.

Í Mosfellsbæ vann Framsóknarflokkurinn stórsigur, tífaldaði fylgi sitt frá síðustu kosningum og fór úr engum bæjarfulltrúa í fjóra af ellefu. Meirihluti Sjálfstæðisflokks og VG féll þar sem síðarnefndi flokkurinn náði ekki kjöri. Sjálfstæðisflokkkurinn hélt sínum fjórum og Viðreisn, Vinir Mosfellsbæjar og Samfylkingin fengu öll einn mann.

Í Garðabæ hélt Sjálfstæðisflokkurinn sínum hreina meirihluta þrátt fyrir að tapa nokkru fylgi og einum bæjarfulltrúa. Flokkurinn er með sjö af ellefu bæjarfulltrúum, Garðabæjarlistinn náði tveimur og Framsókn fékk einn mann kjörinn sem og Viðreisn.

Sjálfstæðisflokkurinn náði hreinum meirihluta í Árborg, sex bæjarfulltrúa af ellefu og felldi þar með meirihluta Framsóknar, Samfylkingar, Miðflokks og Áfram Árborgar. Framsókn fékk tvo menn, Áfram Árborg einn og Samfylking tvo. 

Á Akranesi hélt meirihluti Samfylkingar og Framsóknar og frjálsra. Síðarnefndi flokkurinn tók einn bæjarfulltrúa af Sjálfstæðisflokknum og því skiptast bæjarfulltrúarnir níu jafnt niður á framboðin þrjú.

Í Fjarðabyggð hélt meirihluti Fjarðalistans og Framsóknar og óháðra þrátt fyrir að Fjarðalistinn hafi tapað tveimur bæjarfulltrúum og farið úr fjórum í tvo. Framsóknarflokkurinn bætti við sig einum bæjarfulltrúa, fékk þrjá kjörna. Sjálfstæðisflokkurinn er stærsti flokkurinn í sveitarfélaginu, með fjóra bæjarfulltrúa af níu. 

 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV