Framsókn leggur höfuðborgarsvæðið að fótum sér

15.05.2022 - 02:26
Mynd með færslu
 Mynd: Björn Malmquist - RÚV
Framsóknarflokkurinn vinnur stórsigur á höfuðborgarsvæðinu miðað við fyrstu tölur. Í Mosfellsbæ, Reykjavík og Garðabæ nær flokkurinn inn manni þar sem hann hafði engan fyrir og bæði í Hafnarfirði og Kópavogi bætir hann við sig.

„Þetta er krafa um breytingar og kjósendur treysta Framsókn til að leiða breytingar í samfélaginu,“ sagði Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins, á kosningavöku RÚV í nótt. Skiljanlega var formaðurinn býsna kátur með niðurstöðuna. 

Alls bætir flokkurinn við sig 16 fulltrúum í stærstu sveitarfélögunum, fer úr 20 í 36.  Mest munar þar um Mosfellsbæ og Reykjavík þar sem flokkurinn bætir við sig 8 fulltrúum.

Framsókn, sem lengi hefur verið flokkur landsbyggðarinnar, hefur náð athyglisverðum árangri á höfuðborgarsvæðinu. Hann hlýtur mögulega bestu kosningu í sögu flokksins í Reykjavík eða 18 prósent og tífaldar atkvæðamagnið sitt í Mosfellsbæ frá síðustu kosningum.

Flokkurinn náði ekki inn manni í síðustu borgarstjórnarkosningum en samkvæmt fyrstu tölum fær hann fjóra borgarfulltrúa. Sem gæti þýtt lykilstaða við myndun nýs meirihluta. 

Sömu sögu er að segja úr Mosfellsbæ. Þar náði flokkurinn ekki inn manni í síðustu kosningum en fær nú fjóra.  Í Garðabæ var flokkurinn heldur ekki með mann í bæjarstjórn en er nú með einn bæjarfulltrúa. 

Í Hafnarfirði er Framsóknarflokkurinn í lykilhlutverki. Flokkurinn bætir við sig manni, fær tvo og sömu sögu er að segja í Kópavogi. Þar fær flokkurinn tvo bæjarfulltrúa. Í báðum þessum sveitarfélögum var flokkurinn í meirihluta með Sjálfstæðisflokknum.

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV