Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Almyrkvi á tungli sést frá Íslandi í nótt

15.05.2022 - 18:53
Mynd með færslu
 Mynd: Birgir Þór Harðarson - RÚV
Um klukkan hálf fjögur nótt sést í almyrkva á tungli á himni í suðvestri, þar sem veður leyfir. Sævar Helgi Bragason, jarðfræðingur og ritstjóri stjörnufræðivefsins, segir tunglið verða sveipað rauðum blæ og hvetur alla til þess að fylgjast með sjónarspilinu.

Almyrkvar á tungli verða þegar tunglið gengur inn í skuggann sem jörðin varpar út í geiminn. Það getur bara gerst þegar er fullt tungl eins og verður í nótt.

„Tunglið myrkvast hægt og bítandi frá hálf þrjú sirka og þangað til rétt rúmlega fjögur að okkar tíma, vegna þess að þá sest tunglið frá okkur séð“ segir Sævar. „Þannig við sjáum ekki myrkvann alveg frá upphafi til enda, en við sjáum svona hápunktinn ef viðrar vel.“

Sævar Helgi segir svona myrkva verða einu sinni til tvisvar ár ári. Þegar fullt tungl er þá sést myrkvinn frá allri næturhlið jarðarinnar.

Sólsetur og sólarupprás lýsa upp tunglið

Tunglið verður rautt að lit á meðan á myrkvanum stendur. „Sem er sólarljós frá öllum sólrisum og sólsetrum jarðarinnar í einu að lýsa upp tunglið. Það er alltaf mjög fallegt sjónarspil sem fólk ætti ekki að láta fram hjá sér fara“.

Deildarmyrkvinn mun sjást á suðurhimni í nótt, en almyrkvinn verður í suðvesturátt. Tunglið verður þó mjög lágt á himni, svo áhugasamir ættu að hafa í huga að byggingar eða gróður skyggi ekki á sjóndeildarhringinn í þá áttina.