Mynd: EPA-EFE - KCNA

Yfir 20 dáin úr bráðsmitandi „hitasótt“
14.05.2022 - 01:23
Yfirvöld í Norður Kóreu greina frá því að 21 hafi látist úr „hitasótt“ þar í landi síðasta sólarhring. Tveir dagar eru síðan stjórnvöld greindu frá fyrstu, staðfestu tilfellum COVID-19 í landinu og tilkynntu harðar sóttvarnaaðgerðir, útgöngubann og lokanir. Fyrsta dauðsfallið af völdum farsóttarinnar var staðfest í gær.
Á föstudag var greint frá því að tæplega 188.000 manns hefðu greinst með einkenni bráðsmitandi „hitasóttar“ og að sex úr þeirra hópi hefðu látist. Einn úr þeim hópi, sagði í tilkynningu yfirvalda, hafði greinst með omíkron-afbrigði kórónuveirunnar sem veldur COVID-19.
Þessi 188.000 voru skikkuð í algjört útgöngubann og í dag bættust nær 175.000 manns í þeirra hóp, eftir að þau greindust með „hitasótt,“ eins og það var orðað í frétt norður-kóresku ríkisfréttastöðvarinnar. Þar kom líka fram að 21 til viðbótar hefði látist, en ekki var tekið fram hversu mörg úr þeim hópi, ef einhver, dóu úr COVID-19.