Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Systur geisluðu á stóra sviðinu í Tórínó

Mynd: EPA-EFE / ANSA

Systur geisluðu á stóra sviðinu í Tórínó

14.05.2022 - 20:57

Höfundar

Sigga, Beta, Elín og Eyþór Ingi Eyþórsbörn hafa lokið flutningi sínum á framlagi Íslands til Eurovision í ár, Með hækkandi sól. Ákaft var klappað með íslenska laginu og Systur ljómuðu af gleði.

Systrum var vel tekið í Pala Olimpico-höllinni í Tórínó í kvöld þegar flutningi þeirra lauk. Ljóst var að Systur hefðu slegið í gegn hjá áhorfendum og nú er aðeins hægt að vona að íslenska atriðið njóti viðlíka hylli í símakosningu og hjá dómnefnd. Horfa má á flutning Systra hér að ofan. 

Systur héldu áfram að senda skýr skilaboð til Evrópubúa með þátttöku sinni í keppninni. Auk þess að sem þær vekja athygli á málefnum trans barna með texta lags síns er stríðið í Úkraínu þeim ofarlega í huga. „Friður fyrir Úkraínu. Við elskum ykkur Evrópa,“ sögðu Systur eftir flutninginn og uppskáru mikinn fögnuð viðstaddra.

Ísland var 18. atriðið á svið í ár af þeim 25 sem taka þátt í úrslitum og því fer að styttast í að úrslitin ráðist. Rétt er að taka fram að kosningavaka RÚV hefst á aðalrásinni kl. 21.50 á meðan keppninni stendur enn. Þeir sem vilja þó ekki missa af neinu er bent á RÚV 2 þar sem bein útsending frá Tórínó heldur áfram. Þeir sem vilja algjörlega viðstöðulausa og órofna útsendingu frá Eurovision ættu því að skipta strax yfir á RÚV 2.