Sheikh Mohamed tekur við af hálfbróður sínum

14.05.2022 - 10:27
Crown Prince of Abu Dhabi and Deputy Supreme Commander of the UAE Armed Forces Sheikh Mohamed bin Zayed Al Nahyan attends a meeting with Austrian Chancellor at the foreign ministry in Vienna, Austria, 29 July 2021. Sheikh Mohamed is visiting Vienna for talks on cooperation and discussing latest developments regarding regional and international issues of mutual concern
 Mynd: EPA-EFE/DANIEL NOVOTNY - epa09376857
Krónprinsinn Sheikh Mohamed bin Zayed bin Sultan Al Nahyan, oft kallaður MBZ, hefur verið skipaður forseti Sameinuðu arabísku furstadæmanna af ríkisráði landsins. Tekur hann við af hálfbróður sínum Sheikh Khalifa bin Zayed bin Sultan Al Nahyan sem féll frá í gær.

Sheikh Khalifa hafði gegnt forsetaembættinu frá árinu 2004. Hann hafði átt við heilsubrest að stríða frá árinu 2014, er hann fékk heilablóðfall. Í kjölfar veikindanna lét hann lítið fyrir sér fara opinberlega og féll hluti af valdsviði forsetans í hendur krónprinsins.

Fastlega var gert ráð fyrir að Sheikh Mohamed myndi fylla í skarð hálfbróður síns. Enda er hann sagður hafa haldið um stjórntauma landsins að mestu leyti frá því að Sheikh Khalifa veiktist.  

Sameinuðu arabísku furstadæmin eru sambandsríki sjö furstadæma suðaustarlega í Arabíuskaganum. Faðir Sheikh Mohameds og Sheikh Khalifa, Sheikh Zayed bin Sultan Al Nahyan, var maðurinn á bakvið stofnun Sameinuðu arabísku furstadæmanna árið 1971. Hann gegndi forsetaembættinu í nærri 33 ár, eða þar til hann féll frá árið 2004. Sheikh Mohamed er því þriðji forseti í sögu Sameinuðu arabísku furstadæmanna.