Oddvitar meirihlutans ætla að ræða saman fyrst

14.05.2022 - 22:57
Mynd með færslu
 Mynd: Skjáskot - RÚV
Oddvitar Framsóknar og Sjálfstæðisflokksins í Kópavogi, sem mynduðu meirihluta á síðasta kjörtímabili, ætla að ræða fyrst saman verði úrslitin eins og fyrstu tölur gefa til kynna. Grasrótarframboðið Vinir Kópavogs er óvæntur sigurvegari kosninganna. Oddviti framboðsins var bæði undrandi og glöð þegar fyrstu tölur litu dagsins ljós.

„Við getum verið sátt við fyrstu tölur, þetta er góð byrjun. Það er samt ekkert einboðið að meirihlutinn haldi áfram en það yrði samt fyrst símtalið,“ sagði Orri Hlöðversson, oddviti Framsóknarflokksins sem fær tvo bæjarfulltrúa eftir fyrstu tölur.

Theódóra Þorsteinsdóttir, oddviti Viðreisnar, sagði tölurnar líta ágætlega út en viðurkenndi að það væri fúlt ef flokkurinn missti einn mann. Ef meirihlutinn héldi velli væri eðlilegt að þeir flokkar ræddu fyrst saman. Viðreisn fær einn mann, miðað við fyrstu tölur.

Ásdís Kristjánsdóttir, nýr oddviti Sjálfstæðisflokksins, vonaðist til að flokkurinn næði inn sínum fimmta manni. Flokkurinn fengi fjóra miðað við fyrstu tölur. Hún væri bæjarstjóraefni flokksins og það væri þangað sem stefnan væri sett.

Miðflokkurinn nær ekki manni inn og Karen Elísabet Halldórsdóttir, oddviti flokksins, sagðist vera stolt af kosningabaráttunni. Hún hefði verið heiðarleg og án loforða, ólíkt kosningabaráttu hinna flokkanna. 

Bergljót Kristinsdóttir, oddviti Samfylkingarinnar, var vonsvikin með fyrstu tölur en flokkurinn fær aðeins einn bæjarfulltrúa.  Hún sagðist treysta því að nóttin væri ung en það hefði verið vitað að Vinir Kópavogs myndu taka af flokknum fylgi.

Ólafur Þór Gunnarsson, oddviti VG, sagðist vona til þess að atkvæðunum ætti eftir að fjölga. Töluverð hreyfing væri á fylginu og vísbending væri um að Kópavogsbúar væru að senda skýr skilaboð um óánægju með flokkakerfið.

Helga Jónsdóttir, oddviti Vina Kópavogs, er óvæntur sigurvegari miðað við fyrstu tölur. Framboðið fær tvo fulltrúa. Hún sagðist vera undrandi og glöð en líka þakklát. Þetta hefði verið grasrótabarátta og þau rennt blint í sjóinn. Hún vonaðist til að meirihluti og minnihluti ynnu betur saman á nýju kjörtímabili.

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV