Mynd: AP

Minnst 27 fórust í eldsvoða í Nýju Delí, höfuðborg Indlands í gær, og á þriðja tug slösuðust. Eldurinn braust út í fjögurra hæða iðnaðarhúsnæði í vesturborg Delí síðdegis á föstudag að staðartíma. AFP-fréttastofan hefur eftir Satpal Bharadvaj, aðgerðastjóra slökkviliðsins á vettvangi að um 70 manns hafi verið í húsinu þegar eldurinn kviknaði.
„27 illa brunnin lík hafa verið sótt í bygginguna og rúmlega 20 manns slösuðust og njóta aðhlynningar á sjúkrahúsi,“ sagði Bharadvaj. Að hans sögn var enginn brunaútgangur í húsinu og sagði hann flest hinna látnu hafa kafnað. Indverskir fjölmiðlar greina frá því að allt að 40 manns hafi verið flutt á sjúkraús með brunasár.
Þá hefur AFP eftir varðstjóra slökkviliðs að mörg hinna slösuðu hafi meiðst þegar þau forðuðu sér úr eldhafinu með því að stökkva út um glugga á efri hæðum byggingarinnar. Eldsupptök eru ókunn en tveir menn, sem sagðir eru eigendur byggingarinnar, voru handteknir í tengslum við rannsókn málsins.