Meirihlutinn heldur í Eyjum

Mynd: Skjáskot / RÚV
Litlar breytingar urðu á fylgi framboðanna þriggja í Vestmannaeyjum frá kosningunum fyrir fjórum árum. Sjálfstæðisflokkurinn er sem fyrr stærstur en Fyrir Heimaey og Eyjalistinn halda meirihluta sínum í bæjarstjórn, samkvæmt fyrstu tölum. Oddvitar tveggja síðastnefndu framboðanna segja eðlilegt fyrsta skref að ræða áframhaldandi samstarf ef þetta verða úrslit kosninganna.

Sjálfstæðisflokkur fær 44,8 prósent og fjóra bæjarfulltrúa samkvæmt fyrstu tölum, Fyrir Heimaey 33,9 prósent og þrjá fulltrúa og Eyjalistinn 21,4 prósent og tvo fulltrúa. Sjálfstæðisflokkur og Eyjalistinn bæta við sig manni milli kosninga þar sem bæjarfulltrúum fjölgar úr sjö í níu. 

Páll Magnússon, oddviti Fyrir Heimaey og fyrrverandi þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sagðist mjög ánægður með fyrstu tölur. Hann sagði þetta mjög vel viðunandi fyrstu tölur. Páll sagði að það kæmi sér á óvart hversu lítill munur er á fylgi flokkanna milli kosninganna 2018 og fyrstu talna nú. 

Njáll Ragnarsson, oddviti Eyjalistans, sagðist ekki geta annað en verið ánægður með að fylgi framboðsins ykist milli kosninga. „Það er ekkert gefið í þessu,“ sagði hann um áframhaldandi meirihlutasamstarf en sagði eðlilegt að byrja á því að ræða áframhaldandi samstarf.

Eyþór Harðarson, oddviti Sjálfstæðisflokksins, sagði að fyrstu tölur væru smá vonbrigði og kvaðst hafa vonast eftir fimmta manninum. Hann sagðist þó halda í vonina um að þetta breyttist í síðari tölum. 

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV