Lagði sveitarfélagið fyrir dómi og vann kosningarnar

14.05.2022 - 21:53
Mynd með færslu
 Mynd: Jón Jónsson - Strandabyggð
Þorgeir Pálsson, fyrrverandi sveitarstjóri Strandabyggðar, getur vel við unað eftir kosningarnar í sveitarfélaginu í dag. Hann er oddvitaefni Strandabandalagsins sem fór með sigur af hólmi og það sem gerir þennan árangur merkilegan er að Þorgeir hafði nýverið betur gegn sveitarfélaginu í dómsmáli vegna uppsagnar hans.

Héraðsdómur Vestfjarða dæmdi Strandabyggð til að greiða Þorgeiri hálfa milljón í miskabætur.  Taldi dómurinn að uppsögnin hefði verið framkvæmd með óeðlilega meiðandi hætti.

Í stað þess að leggja árar í bát ákvað Þorgeir að bjóða sig fram fyrir nýtt stjórnmálaafl í sveitarfélaginu og í dag varð ljóst að þetta nýja afl vann sigur í kosningunum. „Ég hugsa að þetta sé sjaldgæft. Fyrst og fremst er þetta viðurkenning frá íbúum Strandabyggðar að þeir þorðu og vildu breytingar. Það hafa verið ákveðin öfl við völd í sveitarfélaginu í mörg ár, við boðuðum breytingar og fólk var tilbúið í þær.“

Þorgeir segir að dómsmálið hafi ekki komið til umræðu í kosningabaráttunni en ár er síðan hann var látinn fara sem sveitarstjóri. „Fólk lét það ekki trufla þig. Þetta sýnir bara að það er engum hollt að vera of lengi við völd og ég er fyrst og fremst mjög ánægður að fólk vildi sjá okkur leiða þetta sveitarfélag.“ 

Leiðrétting: Héraðsdómur komst ekki að þeirri niðurstöðu að uppsögn Þorgeirs hefði verið ólögmæt heldur að hún hefði verið „óeðlilega meiðandi“.

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV