„Hitasóttin“ breiðist út um Norður Kóreu með ógnarhraða

People watch a TV screen showing a news report about the COVID-19 outbreak in North Korea, at a train station in Seoul, South Korea, Saturday, May 14, 2022. North Korea on Saturday reported 21 new deaths and 174,440 more people with fever symptoms as the country scrambles to slow the spread of COVID-19 across its unvaccinated population. (AP Photo/Ahn Young-joon)
 Mynd: AP
COVID-19 breiðist hratt út í Norður-Kóreu þar sem yfirvöld hafa nú staðfest að rúmlega 820.000 hafi smitast af því sem þau kalla „hitasótt“ og 42 hafi látið lífið frá því að sóttin skaut fyrst upp kollinum, þar af 15 undanfarinn sólarhring. Minnst 324.550 af þeim sem smituð eru njóta aðhlynningar á sjúkrahúsum, segir í tilkynningu stjórnvalda í Pjong Jang.

Einræðisherrann Kim Jong Un segir að farsóttin valdi „miklum usla“ í landinu. Enn sem komið er hefur aðeins verið staðfest að ein manneskja hafi greinst með kórónuveirusýkingu og látist úr COVID-19, og annars eingöngu talað um bráðsmitandi „hitasótt“.

Sóttin heldur áfram að breiðast út um landið allt með ógnarhraða, þrátt fyrir að „hámarks neyðar-sóttkvíaáætlun“ ríkisins hafi verið virkjuð. Sú áætlun kveður á um víðtækar lokanir, útgöngubann og strangt ferðabann á milli héraða, bæja og borga landsins og jafnvel einstakra borgarhverfa.

Í frétt AFP er haft eftir sérfræðingum að heilbrigðiskerfi Norður-Kóreu sé í molum og hvorki bóluefni gegn COVID-19 né lyf gegn veirusýkingum að finna í landinu, og heldur ekki aðstæður til skimunar og fjöldasýnatöku.