
„Hitasóttin“ breiðist út um Norður Kóreu með ógnarhraða
Einræðisherrann Kim Jong Un segir að farsóttin valdi „miklum usla“ í landinu. Enn sem komið er hefur aðeins verið staðfest að ein manneskja hafi greinst með kórónuveirusýkingu og látist úr COVID-19, og annars eingöngu talað um bráðsmitandi „hitasótt“.
Sóttin heldur áfram að breiðast út um landið allt með ógnarhraða, þrátt fyrir að „hámarks neyðar-sóttkvíaáætlun“ ríkisins hafi verið virkjuð. Sú áætlun kveður á um víðtækar lokanir, útgöngubann og strangt ferðabann á milli héraða, bæja og borga landsins og jafnvel einstakra borgarhverfa.
Í frétt AFP er haft eftir sérfræðingum að heilbrigðiskerfi Norður-Kóreu sé í molum og hvorki bóluefni gegn COVID-19 né lyf gegn veirusýkingum að finna í landinu, og heldur ekki aðstæður til skimunar og fjöldasýnatöku.