
Fólk má búa sig undir fleiri jarðskjálfta á næstunni
„Hann fannst mjög vel og víða. Fannst vel á höfuðborgarsvæðinu og allt austur í Fljótshlíð, upp í Borgarfjörð en sérstaklega vel á nærsvæðinu eins í Hveragerði.”
Jarðskjálftahrina hefur gengið yfir á Reykjanesi að undanförnu og þensla er tekin að mælast við Fagradalsfjall og Svartsengi.
„Það hefur verið mjög mikil skjálftavirkni á öllum Reykjanesskaganum núna síðustu daga og í maí höfum við talið hátt í 4000 skjálfta sem hafa orðið á öllum Reykjanesskaganum frá því í upphafi mánaðar og margir skjálftar yfir þremur að stærð. Þannig að við erum á tímabili núna þar sem skjálftavirkni er mjög mikil,” segir Kristín.
Upptök skjálftans í dag var 0,6 kílómetra norðaustur af Þrengslum. Kristín segir að búast megi við frekari skjálftum á næstu dögum.
„Við erum að horfa upp á atburðarás núna þar sem er mikil virkni á stóru svæði í gangi. Við teljum að það sé kvikusöfnun á miklu dýpi við Fagradalsfjall, á 16 kílómetra dýpi. En svo er líklega grynnri virkni við Svartsengi og þar hefur líka verið mjög mikil skjálftavirkni undanfarna daga. Þessi skjálfti er svo miklu lengra í burtu þannig að almennt séð er mikil virkni í gangi á öllum Reykjanesskaganum. Við þurfum bara að vera undir það búin að það geta komið fleiri skjálftar.”