Tyrkir á móti NATÓ-aðild Finna og Svía

13.05.2022 - 16:47
In this photo made available by the Turkish Presidency, Turkish President Recep Tayyip Erdogan speaks to the media after Friday prayers, in Istanbul, Turkey, Friday, May 13, 2022. Erdogan said Friday that his country is "not favorable" toward Finland and Sweden joining NATO, indicating that Turkey could use its status as a member of the Western military alliance to veto moves to admit the two countries. (Turkish Presidency via AP)
Erdogan forseti, ræðir við fréttamenn í Istanbúl. Mynd: AP - Forsetaembætti Tyrklands
Tyrkir lýsa yfir andstöðu við að Svíar og Finnar fái aðild að Atlantshafsbandalaginu. Búist er við að þeir leggi fram umsókn í næstu viku. Margir leiðtogar NATO-ríkja hafa lýst yfir stuðningi við að löndin gangi í bandalagið.

Recep Tayyip Erdogan, forseti Tyrklands, sagði það skoðun sína eftir föstudagsbænir í Istanbúl í dag að Svíar og Finnar ættu ekkert erindi í NATO.  „Við fylgjumst með þróun mála vegna Svíþjóðar og Finnlands,“ sagði Erdogan, „en við erum ekki á jákvæðu nótunum, þar sem mistök hafa áður verið gerð með því að hleypa vafasömum ríkjum inn í bandalagið. Það á við þegar Grikkjum var veitt aðild og þið þekkið afstöðu Grikkja til Tyrklands og hvernig þeir hafa fengið önnur NATO-ríki á sveif með sér.“

Erdogan bætti við að því miður væru norrænu ríkin eins og gistihús fyrir hryðjuverkasamtök. Liðsmenn Verkamannaflokks Kúrda PKK og Marx-Lenínistasamtakanna DHKP-C sagði hann að hefðu komið sér fyrir í Svíþjóð og Finnlandi og hefðu jafnvel náð að tryggja sér áhrif á þjóðþingum landanna.

Ann Linde, utanríkisráðherra Svíþjóðar, sagði í dag í viðtali við sænska ríkissjónvarpið að Tyrkir hefðu ekki komið þessum sjónarmiðum á framfæri við sænsk stjórnvöld. Hún og Pekka Haavisto, hinn finnski starfsbróðir hennar, sitja óformlegan fund NATO-ríkjanna í Berlín á morgun. Þar vonast þau til að ná tali af Mevlut Cavusoglu, utanríkisráðherra Tyrklands, og ræða við hann um andstöðu Erdogans forseta við mögulega umsókn landanna um aðild.