
Recep Tayyip Erdogan, forseti Tyrklands, sagði það skoðun sína eftir föstudagsbænir í Istanbúl í dag að Svíar og Finnar ættu ekkert erindi í NATO. „Við fylgjumst með þróun mála vegna Svíþjóðar og Finnlands,“ sagði Erdogan, „en við erum ekki á jákvæðu nótunum, þar sem mistök hafa áður verið gerð með því að hleypa vafasömum ríkjum inn í bandalagið. Það á við þegar Grikkjum var veitt aðild og þið þekkið afstöðu Grikkja til Tyrklands og hvernig þeir hafa fengið önnur NATO-ríki á sveif með sér.“
Erdogan bætti við að því miður væru norrænu ríkin eins og gistihús fyrir hryðjuverkasamtök. Liðsmenn Verkamannaflokks Kúrda PKK og Marx-Lenínistasamtakanna DHKP-C sagði hann að hefðu komið sér fyrir í Svíþjóð og Finnlandi og hefðu jafnvel náð að tryggja sér áhrif á þjóðþingum landanna.
Ann Linde, utanríkisráðherra Svíþjóðar, sagði í dag í viðtali við sænska ríkissjónvarpið að Tyrkir hefðu ekki komið þessum sjónarmiðum á framfæri við sænsk stjórnvöld. Hún og Pekka Haavisto, hinn finnski starfsbróðir hennar, sitja óformlegan fund NATO-ríkjanna í Berlín á morgun. Þar vonast þau til að ná tali af Mevlut Cavusoglu, utanríkisráðherra Tyrklands, og ræða við hann um andstöðu Erdogans forseta við mögulega umsókn landanna um aðild.