Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Sjálfkjörið í tveimur sveitarfélögum

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Ekki þarf að að kjósa í tveimur sveitarfélögum í sveitarstjórnarkosningunum á morgun, þar sem aðeins einn framboðslisti barst. Þar er því sjálfkjörið. Þetta er í Tjörneshreppi og Sveitarfélaginu Skagaströnd.

Í Tjörneshreppi er T-listi Tjörneslistans eina framboðið og núverandi oddviti, Aðalsteinn J. Halldórsson bóndi á Ketilsstöðum, í efsta sæti. Þetta eru þriðju sveitarstjórnarkosningarnar í röð sem T-listinn er sjálfkjörinn.

Engin eiginleg kosningabarátta

Á Skagaströnd er sömuleiðis einn listi í boði, H-listi Skagastrandarlistans, með Halldór Gunnar Ólafsson, núverandi oddvita sveitarstjórnar, í fyrsta sæti. Skagastrandarlistinn var einnig sjálfkjörinn 2002 og 2010. Það hefur því engin eiginleg kosningabarátta verið á Skagaströnd síðustu vikurnar. „Nei, kannski ekki eins og hún hefur verið framkvæmd víðast hvar. En við höfum svosem sett saman stefnuskrá, hún var borin í hús í gær og við ætlum að bjóða fólki í vöfflukaffi og spjall á laugardaginn,“ segir Halldór.

Sameinignarviðræður tekið mikinn tíma

Hann segir sameiningarviðræður hafa litað kjörtímabilið á Skagaströnd og tekið mikinn tíma. Fyrst viðræður og kosningar um sameiningu allra sveitarfélaga í Austur-Húnavatnssýslu, sem var felld. Síðan viðræður um sameiningu Sveitarfélagsins Skagastrandar og Skagahrepps, sem ekki leiddu til kosninga. Ekki sé útilokað að sú sameining verði áfram til umræðu. „Þessi sveitarfélög hafa unnið mjög náið saman í mjög langan tíma. Þannig að við erum allavega vön að eiga gott samstarf,“ segir Halldór.