Setur kaupin á Twitter á ís og krefst upplýsinga

13.05.2022 - 10:25
Mynd með færslu
 Mynd:
Elon Musk, ríkasti maður heims, hefur frestað fyrirhuguðum kaupum sínum á samskiptamiðlafyrirtækinu Twitter. Frá þessu greindi auðjöfurinn sjálfur, einmitt á Twitter.

„Twitter-kaupunum frestað tímabundið á meðan beðið er eftir útreikningum sem sýna að ruslaðgangar og falskir aðgangar séu í raun og veru undir fimm prósent notenda,“ segir í tísti Musks en virði hlutabréfa í fyrirtækinu tók skarpa dýfu eftir að tístið birtist.

Frá því samkomulag náðist við stjórn Twitter hefur Musk verið tíðrætt um að eyða ruslaðgöngum að miðlinum. 

Með færslu Musks fylgdi hlekkur á grein Reuters þar sem fram kom að mat Twitter sé að slíkir ruslaðgangar séu færri en sem nemur fimm prósentum daglegra notenda.