Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Ómar söngur blíður

Mynd með færslu
 Mynd: Lón - Thankfully Distracted

Ómar söngur blíður

13.05.2022 - 10:21

Höfundar

Thankfully Distracted er fyrsta breiðskífa Lóns. Arnar Eggert Thoroddsen rýnir í gripinn sem jafnframt er plata vikunnar á Rás 2.

Arnar Eggert Thoroddsen skrifar:

Lón er skipuð þeim Valdimari Guðmundssyni söngvara, Ómari Guðjónssyni (kassagítar, slagverk og bassi) og Ásgeiri Aðalsteinssyni (kassagítar og slagverk). Þeim til aðstoðar eru Högna Ómarsdóttir á víólu og Tommy Baldur á trommur.

Platan er kóvíð-plata eins og Valdimar sjálfur lýsti á Fjasbókarsíðu sinni í febrúar. „Með persónulegri verkum sem ég hef unnið að (og hef ég nú unnið að þeim nokkrum),“ sagði hann.

Ásgeir og Valdimar eru saman í hljómsveitinni Valdimar og Ómar er einn af okkar slyngustu gítarleikurum, fjölhæfur skolli sem galdrar ævinlega fram heillandi hljóma úr gígjunum sínum sem eru yndislega á skakk og skjön við „venjubundnar“ leiðir. Frábær tónlistarmaður.
Þessi plata er lágstemmd og inn í sig. Mögulega birtingarmynd þeirrar einangrunar og sumpart einmanaleika sem lagðist á okkur öll, allan heiminn, í nokkur misseri. Hún fer samt bil beggja. Já, melankólísk og sumpart dökkleit en um leið blíð og umvefjandi, skautandi um í vonarbirtunni á köflum og gott betur.

Það mætti alveg lýsa henni sem nokkurs konar þjóðlaganýbylgju, flæðið er þannig að mestu leyti, en um leið sér mannskapur hennar til þess að það er aldrei svo einfalt. Munar þar mest um gítarleik Ómars, eins og ég hef nefnt, en einnig sjá Lón-liðar til þess að hljóðmyndin er giska spennandi; lágvær stuðningshljóð og surg sem eru smekklega sett undir framvinduna. Aðalmálið verður þó alltaf söngrödd Valdimars. Þvílíkur söngvari! Röddin er nálægt manni í hljóðblönduninni; stór, mild, löngunarfull og í henni er flauelsmýkt sem erfitt er að lýsa. Valdimar beitir henni á alls konar máta. Hann er rólegur og stóískur í fyrsta lagi en í því næsta fer hann upp, leyfir röddinni að rifna á völdum stöðum og brúkar hæsi á áhrifaríkan máta. Hann fer létt með að magna upp seyð með þessum undrapípum sínum. Í „My Door“ er hann næsta valdsmannslegur í upphafi áður en hann rennir sér í nærgætnislegan, næsta kærleiksríkan gír. Já, pallettan er stór hjá okkar manni. Rakel syngur með í „Runaway“ og gerir vel og platan rennur síðan meira og minna í þeim stíl sem ég hef verið að lýsa.

Góð plata, „hjartaplata“, verk sem er auðheyranlega unnið af listrænni þörf fremur en eitthvað annað. „Lítil“ plata en samt risastór.