Oddvitar meirihlutans beindu spjótum sínum að Hildi

13.05.2022 - 22:15
Mynd: Ragnar Visage / RÚV
Oddvitar flokkanna, sem nú mynda meirihluta í borgarstjórn, beindu allir spurningum sínum að Hildi Björnsdóttur, oddvita Sjálfstæðisflokksins. Raunar þótti Degi B. Eggertssyni, borgarstjóra, nóg um spurningaflóðinu til Hildar og hætti við spurningu sína til hennar en Hildur svaraði henni engu að síður.

 

Dóra Björt Guðjónsdóttir, oddviti Pírata, byrjaði á því að spyrja Hildi um orðræðu hennar um fjármál borgarinnar. Hún benti á að innviðaráðuneytið hefði sagt í skriflegu svari til Alþingis að ekki þyrfti að hafa neinar áhyggjur af fjárhag borgarinnar. Engu að síður hefði hún talað eins og borgin væri við gjaldþrot.

Hildur sagðist aldrei hafa sagt borgina vera við gjaldþrot en það væri ekkert leyndarmál að borgarsjóður væri rekin með 4 milljarða halla. Reksturinn væri ekki nógu góður og borgarsjóður stæði ekki undir sér.

Jóhannes Loftsson, oddviti Ábyrgrar framtíðar, spurði líka Hildi.  Hann vildi vita hvort Sjálfstæðisflokkurinn væri hlynntur gjaldtöku til að fjármagna borgarlínuna. Hildur sagði þetta einmitt eitt af því sem hún hefði haft áhyggjur af. Það þyrfti að koma löggjöf frá þinginu sem enn væri ekki komin fram og umræðan um hana yrði eflaust bæði erfið og pólitísk.

Líf Magneudóttir, oddviti VG, lék forvitni á að vita hvort boðaðar skattalækkanir Sjálfstæðisflokksins myndu verða til þess að allar gjaldskrá borgarinnar hækkuðu. „Alls ekki. Það er hægt að lækka skatt og stækka kökuna,“ sagði Hildur. 

Dagur B. Eggertsson, oddviti Samfylkingarinnar, sagðist hafa ætlað að spyrja Hildi út í það af hverju Sjálfstæðisflokkurinn hefði ekki stutt launahækkanir leikskólakennara í þrígang en kvaðst hafa fengið svör við þeirri spurningu. Sjálfstæðisflokkurinn vildi lækka skatta en ekki hækka laun kennara.

Hildur nýtti engu að síður tækifærið og sagði flokkinn hafa bent á ákveðnar leiðir til að hækka laun kennara. Eins og staðan væri í dag væri  verið að nýta mikið fé í lítinn árangur. 

Ómar Már Jónsson, oddviti Miðflokksins, skar sig úr og spurði Einar Þorsteinsson, oddvita Framsóknarflokksins, út í það hvort Framsókn myndi ganga inn í nýjan meirihluta undir „stefnu Samfylkingarinnar“ ef núverandi meirihluti héldi ekki velli. Einar sagði það af og frá - flokkurinn hefði talað skýrt fyrir sinni stefnu og myndi halda henni á lofti.  Hann myndi ekki undirgangast stefnu Samfylkingarinnar.

 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV