Lovísa tekur undir og segir að allur hópurinn hafi verið dauðþreyttur eftir þriðjudaginn. „Ég held þetta sé svona adrenalínþynnka. Maður var bara öskrandi í græna herberginu og daginn eftir kemur raunveruleikinn bara búmm.“
Íslenski hópurinn var ekki sá eini sem öskraði í höllinni þegar Ísland var lesið upp. Það mátti heyra fagnaðarlætin bergmála um allt og ljóst að Systur eiga sér marga aðdáendur. „Þetta var ótrúlegt,“ segir Elín. „Ég er enn að taka þetta inn, þetta var bara geggjað.“
Lovísa viðurkennir að þeim hafi brugðið að heyra Ísland lesið upp svona snemma. „Við héldum að ef við kæmumst áfram yrðum við lesin upp síðast en mjög gaman, maður fann að það var gaman að fara áfram.“
Elín segir að þær ætli inn í úrslitin á laugardaginn með því hugarfari að þau hafi lagt allt í verkefnið hingað til og haldi því áfram. „Við ætlum að anda, safna kröftum og kjarna okkur fyrir laugardag. Við erum spennt og í góðum gír, ætlum aftur á svið að syngja þetta dásamlega lag og reyna að hafa gaman saman.“ Hún lýsir ferðinni sem flæðisferð þar sem óvissunni er fagnað. „Frá upphafi höfum við verið í flæði, maður veit aldrei hvað gerist næsta dag og þetta er allt einstakt.“
En eru þær orðnar Eurovision-aðdáendur eftir lífsreynsluna? „Ég ákvað að fara í handsnyrtingu í dag og þú varst að tala um glimmer um daginn, það er bara glimmer,“ segir Lovísa og sýnir Björgu glitrandi neglurnar. „Það er algjört glimmer í hópnum. Ég elska þetta allt, ég er Eurovision-fan,“ segir Elín að lokum.
Á tali í Tórínó var á dagskrá á RÚV í kvöld kl. 19.40.