Boðið upp í dans og fullyrt um meirihlutadaður

13.05.2022 - 21:37
Mynd: Ragnar Visage / RÚV
Það hefur myndast ákveðin hefð í leiðtogaumræðum fyrir kosningarnar á RÚV að gefa oddvitum tækifæri til að spyrja hver annan. Sanna Magdalena Mörtudóttir, oddviti Sósíalistaflokksins, fór ekkert fínt í hlutina og spurði Dag B. Eggertsson, oddvita Samfylkingarinnar, hreint út hvort til greina kæmi að skipta út Viðreisn fyrir Sósíalista. Oddviti Sjálfstæðisflokksins sagði borgarstjóra og Framsókn hafa verið að daðra um nýjan meirihluta.

 

Dagur sagðist vera ánægður með núverandi meirihluta sem hefði unnið sem einn maður. Héldi hann velli yrði það eðlilegasta valið. Flokkarnir hefðu boðið Sósíalistum að vera með síðast en hefðu ekki verið reiðubúnir að stofna „byggingavöruverslun borgarinnar“ eða „skipafélag borgarinnar“ til að vera laus við milliliði. „Við myndum ræða það aftur í hópnum og við lokuðum engum dyrum síðast.“

Næsta spurning beindist einnig að borgarstjóra og kom frá Kolbrúnu Baldursdóttur, oddvita Flokks fólksins.

Hún spurði út í aðgerðir meirihlutans til að styðja við fátæk börn því aðeins 500 af 2.000 hefðu fengið slíkan stuðning. Dagur sagði meirihlutann hafa tryggt að börn sem byggju við sára fátækt fengju ókeypis skólamáltíð, stuðning við frístund og svo framvegis. „Ég er bara mjög stoltur af því hvernig velferðarkerfi borgarinnar kemur til móts við þá sem eru á jaðri samfélagsins.“

Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, oddviti Viðreisnar,  spurði Hildi Björnsdóttur, oddvita Sjálfstæðisflokksins, hvernig flokkurinn gæti lofað því að bæta starfsaðstæður í leikskólum þegar hann hefði ekki samþykkt kjarasamninga leikskólakennara í þrígang. Hildur sagði borgarsjóð vera það illa rekin og því hefði ekki verið hægt að lofa launahækkunum. 

Einar Þorsteinsson, oddviti Framsóknar, spurði Líf Magneudóttur, oddvita VG, um Sundabraut og hvort flokkurinn styddi þá framkvæmd. „Ef Sundabraut sker ekki sundur hverfi og veldur ekki mengun þá er það þess virði að skoða legu hennar og útfærslu þegar við höfum uppfyllt hlutdeild okkar til vistvænna samgöngumála.“ Breyta þyrfti ferðamátum borgarbúa.

Hildur Björnsdóttir, oddviti Sjálfstæðisflokksins, fullyrti að Framsókn og borgarstjóri hefðu verið að daðra við hvorn annan um meirihlutasamstarf og taldi það ávísun á áframhaldandi úrræðaleysi.  Dagur sagði Samfylkinguna hafa brunnið fyrir leikskólamálum og að áætlanir gerðu ráð fyrir að hægt væri brúa bilið fyrir leikskólabörn niður í tólf mánuði á næstu 4 til 6 árum.

Spyrlar kvöldsins stóðust ekki mátið og spurðu Einar Þorsteinsson um meint daður hans og borgarstjóra. „Hef alveg verið skýr að ef núverandi meirihluti heldur þá er það fyrsta val.“ Einar vísaði því á bug að hann hefði verið að daðra.

 

 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV