Á einu máli um húsnæðisskort en ósammála um leiðir

13.05.2022 - 21:12
Mynd: Ragnar Visage / RÚV
Oddvitarnir í Reykjavík voru með svör á reiðum höndum þegar þeir tókust á um húsnæðis-og skipulagsmál í síðustu leiðtogaumræðunum fyrir borgarstjórnarkosningarnar á morgun. Þeir voru sammála um að bregðast þyrfti við húsnæðisskorti í höfuðborginni en voru ósammála um hver besta leiðin væri; beina frekari sjónum að úthverfum eða halda áfram á núverandi braut.

Venju samkvæmt hafa húsnæðis-og skipulagsmál verið ofarlega á baugi í þessari kosningabaráttunni.

Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri og oddviti Samfylkingarinnar, sagði meirihlutann hafa tvöfaldað lóðaframboð inn í kjörtímabilið sem væri að klárast og hann stæði óhræddur við það loforð að lóðaframboð á næsta kjörtímabili yrði tvöfaldað þar sem núverandi meirihluta hefði tekist það. „Þessar miklu vendingar hafa orðið á stuttum tíma því árið 2019 bar öllum greiningaraðilum saman um að það væri jafnvægi en COVID og vaxtahækkanir hafa gjörbreytt stöðunni.“

Hildi Björnsdóttur, oddvita Sjálfstæðisflokksins, þótti dauft að heyra borgarstjóra stæra sig af metuppbyggingu þegar „við stöndum í miðri skortstöðu.“ Hún sagði meirihlutann vera byggja á flóknum stöðum þar sem stundum þyrfti að rífa hús áður en uppbygging gæti hafist. Sjálfstæðisflokkurinn væri fylgjandi þéttingu byggðar en það þyrfti líka að nýta innviðina í úthverfum sem gætu tekið á móti uppbyggingu.

Gunnar Gunnarsson, oddviti Reykjavík - besta borgin, sagði lausnina einfalda og borgarstjóri hefði látið draga sig á asnaeyrunum. Vel væri hægt að hefja uppbyggingu í Vatnsmýri og nýta ætti þrjú næstu kjörtímabil til að fara í þessar framkvæmdir.

Einar Þorsteinsson, oddviti Framsóknarflokksins, skoraði á borgarstjóra að standa við gerða samninga varðandi flugvöllinn og Vatnsmýrina. Samið hefði verið um það fyrir þremur árum að farið yrði að leita að öðrum stað undir flugvöllinn. Flugvöllurinn færi hins vegar ekki fyrr en sá staður væri fundinn. Hann taldi Dag verða að hefja sig upp fyrir þá þröngu sýn að hann væri eingöngu borgarstjóri borgarbúa, Reykjavík væri höfuðborg allra Íslendinga og Dagur ætti að vera borgarstjóri í höfuðborg Íslands.

Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, oddviti Viðreisnar, vísaði því á bug að meirihlutinn hefði látið úthverfin afskipt eða þeim ekki verið sinnt. Meirihlutinn hefði keypt þar kjarna til að endurskipuleggja og fá þar líf, hafa hverfin lifandi og skemmtileg. Meiri þjónusta inni í hverfunum þýddu að fólk gæti unnið nær heimilum sínum. „Það er af og frá að úthverfin séu afskipt. Þau verða ekki afskipt á minni vakt.“

Sanna Magdalena Mörtudóttir, oddviti Sósíalistaflokksins, sagði neyðarástand ríkja í húsnæðismálum. Það væri algjört lykilatriði að tryggja borgarbúum öruggt þak yfir höfuðið. Fjöldi fólks væri að bíða eftir húsnæði hjá Félagsbústöðum og fjölmörg dæmi væri um að það þyrfti að borga 70 prósent af ráðstöfunartekjum í húsnæði.  „Við eigum að stíga þarna inn í því við eigum ekki að vera í þessari stöðu.“

Líf Magneudóttur, oddviti Vinstri hreyfingarinnar grænt framboð, sagði hugmynd flokksins ganga lengra en þetta. Borginni bæri skylda að veita félagslegt húsnæði en borgin ætti núna að vera gerandi á húsnæðismarkaði. Hún vildi horfa til borga eins og Helsinki í Finnlandi og byggja svokallaða Reykjavíkurbústaði sem stæðu öllum til boða og hafa þannig áhrif á leigumarkað sem væri óstöðugur og til vandræða.

Ómar Már Jónsson, oddviti Miðflokksins, sakaði borgarstjóra og meirihlutann um metnaðarleysi gagnvart borgarbúum.  Húsnæðisskorturinn ætti sér aðdraganda því það væri ekki eins og fólk hefði vaknað og það hefði vantað 4.000 íbúðir. Skipuleggja þyrfti hraðar ný hverfi og hætta þéttingu byggðar með lúxusíbúðir handa þeim sem ættu peninga.

Dóra Björt Guðjónsdóttir, oddviti Pírata, sagði flokkinn vilja leita allra leiða og lausna til að hraða uppbyggingu húsnæðis í þéttri lífsgæðaborg. Reykjavík væri þegar leiðandi í uppbyggingu óhagnaðardrifinna húsnæðisfélaga og félagslegs húsnæðis. Halda ætti áfram á þessari braut og gefa frekar í. „Við viljum ekki draga einhverja lausn upp úr hattinum.“ Húsnæðiskrísan væri ekki bara ábyrgð á borgina.

Jóhannes Loftsson, oddviti Ábyrgrar framtíðar, sagði ástandið á húsnæðismarkaðinum vera alvarlegt. Og það þýddi að meirihlutinn væri að gera eitthvað rangt. Verið væri að byggja á þéttingarsvæði sem væri of dýrt. Flokkurinn vildi byggja ódýrt í úthverfum eins og Kjalarnesi og nýta svokallaða Viðeyjarleið sem myndi stytta ferðatíma tvöfalt meira en  Sundabrautin.   Þetta væri framkvæmd sem myndi borga sig sjálf og auka ferðafrelsi í Reykjavík.

Kolbrún Baldursdóttir, oddviti Flokks fólksins, sagði húsnæðisþáttinn eitt af aðalmálunum. Það væri ótrúlegt að vera í þessari stöðu núna þegar þetta hefði líka verið vandinn fyrir fjórum árum. Nýta ætti úthverfin og innviðina þar því þeir væru löngu sprungnir þar sem verið væri að þétta byggðina. Þetta hefði áhrif á leigumarkaðinn sem bitnaði á þeim sem væru efnaminni.

 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV