„Við fengum sérstaka heimild til að koma hingað“

Mynd: Samsett / RÚV/EBU

„Við fengum sérstaka heimild til að koma hingað“

12.05.2022 - 10:53

Höfundar

„Nú er reynt að útrýma úkraínskri menningu og þess vegna skiptir það okkur miklu máli að vera hérna og sýna að menningin og tónlistin lifa góðu lífi og hafa mikil og falleg sérkenni,“ segir Oleh Psyuk, einn meðlimur úkraínsku sveitarinnar Kalush Orchestra sem tekur þátt fyrir hönd Úkraínu í ár. Herskylda er í landinu en þeir fengu heimild til að yfirgefa það tímabundið og verða landi og þjóð til sóma í Eurovision.

Loftið var spennuþrungið í Palaolimpico höllinni í Tórínó á Ítalíu þegar í ljós kom hvaða tíu lönd komust upp úr fyrri undanriðli Eurovision á þriðjudag. Tvö af Norðurlöndunum fóru þá áfram, Systurnar okkar íslensku flugu auðvitað í úrslit eftir stórkostlegan flutning á laginu Með hækkandi sól. Það gerðu loðnu gulu úlfarnir frá Noregi líka eftir að syngja um að gefa úlfinum banana til að hlífa ömmu gömlu, en dönsku stelpurnar náðu ekki áfram að þessu sinni.

Í kvöld fara fram síðari undanúrslit keppninnar og þá kemur í ljós hvaða tíu lönd fylgja Systrunum og úlfunum í úrslitin sem fara fram í höllinni á laugardag.

Úkraínu hefur oft gengið vel í keppninni og í ár er þeim spáð sigri. Þjóðin hefur verið langefst í veðbönkum síðan Rússar réðust inn í landið og var það áttunda landið sem var tilkynnt inn í úrslitin á þriðjudag. Lag þeirra í ár nefnist Stefania og er þjóðlagaskotið rapp með flautum og dansi.

Björg Magnúsdóttir er auðvitað stödd í Tórínó og hitti þar mennina á bak við hljómsveitina Kalush Orchestra. Hún ræddi við þá á dögunum og byrjaði á að spyrja hvort það hefði verið erfitt að komast til Ítalíu en nú er herskylda í Úkraínu fyrir karlmenn átján ára og eldri. „Það var nokkuð erfitt því karlar mega ekki fara frá Úkraínu, en við fengum sérstaka heimild til að koma hingað,“ segir Oleh Psyuk einn meðlimur sveitarinnar. Hann segir að þeir leggi sig fram við að gera landinu eins mikið gagn með þátttökunni og þeir mögulega geta. Þátttakan sé þjóðinni mikilvæg.

„Nú er reynt að útrýma úkraínskri menningu og þess vegna skiptir það okkur miklu máli að vera hérna og sýna að úkraínsk menning og tónlist lifa góðu lífi og hafa mikil og falleg sérkenni,“ segir hann og kveðst afar þakklátur fyrir allan þann stuðning sem þeir hafa fundið fyrir alls staðar úr heiminum. „Við skynjum mikinn stuðning frá mörgu fólki og mörgum löndum og við viljum þakka öllum fyrir að styðja landið okkar.“

Markmið Eurovision er auðvitað að Evrópa gleðjist saman eitt kvöld á ári og listamennirnir frá Úkraínu eru afar meðvitaðir um það. Þeir syngja lagið til móður Oleh, Stefaniu.

Björg Magnúsdóttir ræddi við Kalush Orchestra í Kastljósi, innslagið má horfa á í heild í spilaranum hér fyrir ofan.