Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Um 560 úkraínskir þjóðvarðliðar fallnir

12.05.2022 - 02:57
FILE - A Ukrainian serviceman takes a photograph of a damaged church after shelling in a residential district in Mariupol, Ukraine, March 10, 2022. (AP Photo/Evgeniy Maloletka, File)
Hafnarborgin Mariupol er nánast rústir einar eftir margra vikna sprengjuárásir Rússa en nokkur hundruð hermenn Azov-hersveitanna halda enn til í Azov-stálverksmiðjunum í borginni ásamt nokkur hundruð óbreyttum borgurum sem þar leituðu skjóls. Mynd: AP
Rúmlega 560 úkraínskir þjóðvarðliðar hafa fallið síðan Rússar réðust inn í Úkraínu 24. febrúar. Oleksiy Nadtotsjí, æðsti yfirmaður þjóðvarðliðsins, greinir frá þessu og segir 1.697 þjóðvarðliða til viðbótar hafa særst. Þjóðvarðliðið er einskonar millistig hers og lögreglu, sem er virkjað til almenns hernaðar á stríðstímum og heyrir beint undir innanríkisráðuneytið.

Misjafn sauður í mörgu fé

Um 60.000 manns tilheyra þjóðvarðliðinu, þar á meðal nokkrar vopnaðar sveitir sjálfskipaðra varðmanna Úkraínu, sem öðlast hafa aukna viðurkenningu og nýtt hlutverk síðan stríðið hófst.

Ein þeirra er hin umdeilda Azov-herdeild, sem hefur Azov-stálverksmiðjurnar í Mariupol, síðasta vígi Úkraínumanna í borginni, enn á sínu valdi, eða því sem eftir er af þeim. Hefur deildinni verið hampað mjög fyrir úthald sitt og baráttuvilja. Til skamms tíma voru meðlimir Azov-hersveitanna hins vegar úthrópaðir víða sem öfga-þjóðernissinnar og nýnasistar.

Stjórnvöld í Kænugarði og Moskvu hafa verið spör á upplýsingar um mannfall í sínum röðum. Um miðjan apríl greindi Volodymyr Zelensky Úkraínuforseti þó frá því að 2.500 - 3.000 úkraínskir hermenn hefðu fallið og um 10.000 særst.