
Fyrsta myndin af risasvartholinu í miðju Vetrarbrautar
Rannsóknarsamstarf sem kallast Event Horizon Telescope og samanstendur af vísindamönnum frá öllum heimshornum, tók myndina með neti útvarpssjónauka um alla Jörð.
Í tilkynningu kemur fram að myndarinnar hefur verið beðið með mikilli eftirvæntingu. Vísindamenn höfðu áður séð stjörnur á sveimi um eitthvað þétt og þungt en ósýnilegt í miðju Vetrarbrautarinnar, sem hafði bent sterklega til þess að um væri að ræða risasvarthol. Myndin sem birt var í dag eru fyrstu beinu sýnilegu sönnunargögnin fyrir því.
Risasvartholið er í um 27 þúsund ljósára fjarlægð frá Jörðinni. Svo órafjarlægt að stærð þess á himninum er svipuð og að sjá kleinuhring á tunglinu. Til þess að það sé hreinlega hægt að taka mynd af því urðu vísindamenn að setja saman svokallaðann EHT sjónauka.
Sá sjónauki samanstendur af átta samtengdum útvarpssjónaukum um allan heim sem saman mynda einn sjónauka á stærð við Jörðina.