Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Fyrsta COVID-19 tilfellið staðfest í Norður-Kóreu

In this photo provided by the North Korean government, North Korean leader Kim Jong Un, center, attends a meeting of the Central Committee of the ruling Workers' Party in Pyongyang, North Korea Thursday, May 12, 2022. Independent journalists were not given access to cover the event depicted in this image distributed by the North Korean government. The content of this image is as provided and cannot be independently verified.  (Korean Central News Agency/Korea News Service via AP)
Kim Jong Un í öndvegi á neyðarfundi miðnefndar Verkamannaflokks Norður Kóreu vegna fyrsta, staðfesta COVID-19-tilfellisins í landinu. Mynd: AP
Stjórnvöld í Norður-Kóreu tilkynntu fyrir stundu að fyrsta tilfelli COVID-19-smits hefði greinst í landinu. Fram til þessa hafa stjórnvöld í Pjong Jang fullyrt að þeim hafi tekist að halda kórónuveirunni utan alþýðulýðveldisins og forða þannig þeim 26 milljónum sem þar búa frá því að veikjast af COVID-19. Árla fimmtudagsmorguns, um lágnættið að íslenskum tíma, greindi ríkisfréttastofa Norður-Kóreu svo frá fyrsta staðfesta tilfellinu og sagði það „grafalvarlegt atvik" sem varði þjóðaröryggi.

Í fréttinni kom fram að viðkomandi hefði greinst með hið bráðsmitandi omicron-afbrigði. Blásið var til neyðarfundar í miðnefnd Verkamannaflokks Norður Kóreu, með Kim Jong Un í forsæti.

Samkvæmt kóresku fréttastofunni var ákveðið að innleiða „hámarks neyðar-veiruvarnaráætlun" landsins án tafar. Kim upplýsti fundarmenn um að markmiðið væri að uppræta vandann að fullu eins skjótt og auðið er og hét því að það markmið myndi nást á undraskömmum tíma, slík væri samstaða þjóðarinnar og agi.

Hámarks neyðar-veiruvarnar-áætlunin kveður meðal annars á um enn harðara landamæraeftirlit en hingað til, lokanir og takmarkanir af ýmsu tagi og skiptingu landsins, borga þess og bæja í stranglega aðskilin svæði.   
 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV