Fagnar umsókn Finna og býst við skjótri afgreiðslu

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Íslensk stjórnvöld munu styðja umsókn Finna um aðild að Atlantshafsbandalaginu. Finnar staðfestu í morgun að þeir sæki um og segja ástæðuna vera innrás Rússlands í Úkraínu.

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra gerir ráð fyrir að ferlinu verði lokið fyrir leiðtogafund NATO í Madríd í lok næsta mánaðar. Hún leggur senn fram þingsályktunartillögu um málið.

„Sem ég geri ráð fyrir að verði þverpólitískur stuðningur við. Svo fer það inn í utanríkismálanefnd, eftir að hafa farið í gegnum þingflokkana fyrst, og þaðan til forseta. Þetta ætti að taka skamman tíma ef allt er eðlilegt,“ segir utanríkisráðherra.

Þórdís Kolbrún býst við því að ferlið verði svipað í öðrum ríkjum enda hafi Finnar gengið úr skugga um að stuðningurinn sé til staðar. Sums staðar muni það þó taka lengri tíma en fáeina daga. Hún segist þó gera ráð fyrir að þetta verði frágengið fyrir leiðtogafund í Madríd í lok næsta mánaðar.

Ákvörðun Finna tekur hún fagnandi. „Það má segja að þetta hafi að miklu leyti legið í loftinu. Þau hafa farið í gegnum þessa miklu vinnu og þetta er þeirra ákvörðun, að sækja um aðild. Ég fagna því mjög og Ísland mun að sjálfsögðu styðja við það. Það að Finnar verði hluti af Atlantshafsbandalaginu mun auka öryggi á svæðinu. Þetta mun styrkja varnarbandalagið og þar með getu okkar til að verjast á svæðinu.“