Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

ASÍ gagnrýnir notkun Icelandair á frammistöðuappi

Mynd með færslu
 Mynd: Icelandair
Forseti ASÍ segir blað brotið á íslenskum vinnumarkaði með snjallforriti, sem flugfreyjum og -þjónum Icelandair er gert að nota til að meta frammistöðu vinnufélaga sinna. Lögmenn Flugfreyjufélags Íslands kanna nú grundvöll fyrir notkun þess.

Í forritinu, sem hlaðið er niður í síma, gefa flugfreyjur Icelandair hver annarri einkunn eftir hverja vakt. Matið er í átta liðum og það felst meðal annars í mati á leiðtogahæfileikum, vinnusemi og samskiptahæfni. Þá er spurt um viðhorf til vinnuveitanda.

Forritið var tekið í notkun fyrir nokkrum vikum, að sögn Guðlaugar Líneyjar Jóhannsdóttur formanns Flugfreyjufélags Íslands, sem er aðildarfélag ASÍ. Hún segir að margir í starfsmannahópnum setji spurningamerki við fyrirkomulagið, ekki liggi fyrir hvernig eigi að nota upplýsingarnar sem safnist fyrir með þessum hætti eða hvaða áhrif þær gætu haft á stöðu flugfreyjanna.  Hún segir að stjórn félagsins skoði nú málið í samstarfi við lögmenn þess.

Fréttastofu er kunnugt um óánægju meðal flugliða Icelandair, en að þeir þori ekki að láta hana í ljós af ótta við afleiðingarnar.

Drífa Snædal, forseti ASÍ, segir að hún viti ekki til þess að slíkt starfsmat hafi áður verið notað á íslenskum vinnumarkaði. „Mér finnst það brjóta blað á íslenskum vinnumarkaði ef það er verið að fara fram á það að starfsfólk njósni hvert um annað og sé að gefa hvoru öðru mat. Þetta veldur óöryggi í vinnu og við erum líka að tala þarna um stétt sem er sagt upp reglulega. Þannig að þetta fjallar um vellíðan í vinnu, þetta fjallar um atvinnuöryggi,“ segir Drífa.

Segir stuðlað að tortryggni og krafa um þrælslund

Hún segir að þetta fjalli ekki síst um félagsskap vinnandi fólks. „Það er verið að brjóta það upp með því að búa til innbyggða samkeppni, innbyggða tortryggni og krefja um þrælslund gagnvart fyrirtækinu.“

Mun ASÍ beita sér á einhvern hátt í þessu? „Við munum að sjálfsögðu taka þetta fyrir hjá okkur,“ segir Drífa.

Ásdís Ýr  Pétursdóttir, upplýsingafulltrúi Icelandair segir í skriflegu svari til fréttastofu að fyrirtækið treysti starfsfólki til að gefa heiðarlega og uppbyggilega endurgjöf. Flugfreyjur séu eina stéttin hjá fyrirtækinu sem gert sé að meta vinnufélaga sína með þessum hætti. Ekki fengust svör við spurningum fréttastofu um hvernig unnið yrði úr upplýsingum sem verða til við skráninguna, hvort þetta stæðist persónuverndarlög eða hvort þetta gæti haft áhrif á vinnuandann.

annalth's picture
Anna Lilja Þórisdóttir