Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Oddvitar meirihlutans ósammála um sameiningu

Mynd með færslu
 Mynd: RUV
Oddvitar þeirra fjögurra flokka sem mynda meirihluta í borginni greinir á um hvort huga ætti að því að sameina Reykjavík öðrum sveitarfélögum. Dagur B. Eggertsson, oddviti Samfylkingar, og borgarstjóri og Dóra Björt Guðjónsdóttir, oddviti Pírata, vilja sameiningu en Líf Magneudóttir, oddviti Vinstri grænna, er alfarið á móti því. Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, oddviti Viðreisnar, tekur ekki afstöðu til þessarar spurningar í kosningaprófi RÚV sem er aðgengilegt á kosningavefnum.

Í kosningaprófinu er hægt að skoða svör um 800 frambjóðenda í öllum sveitarfélögum landsins við 25 fullyrðingum, og þar geta kjósendur séð með hvaða frambjóðanda þeir eiga mesta samleið. Ein af fullyrðingunum í prófinu er svona:

Sveitarfélagið ætti að huga að því að sameinast öðrum sveitarfélögum

Eins og sjá má á myndinni hér að ofan eru oddvitar meirihlutans ósammála um hvort Reykjavík ætti að skoða þann möguleika að sameinast einhverju nágrannasveitarfélaganna. Þeir sem settu merki sitt lengst til hægri á ásnum eru sammála því að skoða sameiningu en þeir sem eru vinstra megin eru ósammála. 

Hildur og Sanna ekki hrifnar af sameiningu

Viðhorf til sameiningar eru ólík innan meirihlutans en sömuleiðis utan hans. Hildur Björnsdóttir, oddviti Sjálfstæðisflokksins, er ekki hrifin af því að skoða sameiningu en Einar Þorsteinsson, oddviti Framsóknarflokksins, vill skoða betur þann möguleika. Það vilja Kolbrún Baldursdóttir, oddviti Flokks fólksins, og Ómar Már Jónsson, oddviti Miðflokksins, einnig gera. Jóhannes Loftsson, oddviti Ábyrgrar framtíðar, merkir við 51% en Sanna Magdalena Mörtudóttir, oddviti Sósíalistaflokksins, er alfarið á móti því að skoða sameiningu. Gunnar Hjörtur Gunnarsson, oddviti Reykjavík besta borgin, tók ekki þátt í kosningaprófi RÚV. 

Meiri sameiningarumræða á landsbyggðinni

Sameiningarmál hafa verið nokkuð í deiglunni síðustu misseri og sveitarfélögum fækkað jafnt og þétt. Nú er kosið í 64 sveitarfélögum en fyrir tuttugu árum, árið 2002 var kosið í 105 sveitarfélögum. Aukin ábyrgð hefur verið lögð á sveitarfélög þegar kemur að þjónustu við íbúa og þau þurfa því að vera öflugri en áður. Víða eru því sameiningarkostir til skoðunar til að gera sveitarfélögin sjálfstæðari, sjálfbærari og betur í stakk búin til að sinna þeim verkefnum sem þeim ber skylda til að sinna. Þessi sameiningarumræða hefur verið mikil víða á landsbyggðinni en stjórnvöld settu nýlega ákvæði um lágmarksíbúafjölda í sveitarfélögum en síðast var kosið í ellefu sveitarfélögum með færri en 250 íbúa. 

Umræða um sameiningu hefur ekki farið hátt á höfuðborgarsvæðinu. Reykjavík er langstærsta sveitarfélag landsins með yfir 135 þúsund íbúa. Það nær upp á Kjalarnes en þessi tvö sveitarfélög urðu að einu árið 1998. Þá sameinuðust Garðabær og Álftanes árið 2012. Telja má víst að mikil hagræðing felist í sameiningu sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu en umræða um sameiningu þeirra stærri er skammt á veg komin.