Hlegið og dansað fram á rauða nótt  

Mynd: RÚV / RÚV

Hlegið og dansað fram á rauða nótt  

11.05.2022 - 12:00

Höfundar

„Ég held að innst inni hafi Lovísa Elísabet og Systurnar verið orðnar alveg sáttar við að færa Evrópu bara fallegt lag,“ segir Gísli Marteinn Baldursson, þulur í útsendingunni á Eurovision. Þau hafi ekki endilega búist við að komast áfram en fögnuðu innilega þegar það gerðist og dansað var fram á rauða nótt.

Systurnar Sigga, Beta og Elín, og bróðirinn Eyþór, stigu á svið í Tórínó á Ítalíu í Eurovision-keppninni í gærkvöldi og líkt og þjóðin veit komust þau áfram í lokakeppnina á laugardaginn. Gísli Marteinn Baldursson er, eins og oft áður, þulur í útsendingunni frá keppninni og því öllum hnútum kunnugur. Hann segir frá stemningu gærkvöldsins og hvað tekur við. 

Öskruðu, hlógu og föðmuðust

„Þó svo að við héldum í vonina þá vissum við að þetta væri ekkert öruggt, að ekkert væri í hendi,“ segir Gísli Marteinn í samtali við Morgunútvarpið á Rás 2. „Öfugt við þegar við sendum Daða og Hatara, þá vorum við nokkurn veginn viss um að þau atriði kæmust áfram og það væri algjör skellur ef þau gerðu það ekki.“ Hann segir stemninguna hjá íslenska hópnum hafa því verið mjög góða í gærkvöldi eftir að niðurstöður komu í hús.  

„Ég held að innst inni hafi Lovísa Elísabet og Systurnar verið orðnar alveg sáttar við að færa Evrópu bara fallegt lag. Og ef það hefði ekki komist áfram þá væri það þarna úti og fólk gæti hlustað ef það vildi,“ segir Gísli Marteinn. „En svo bara kemst það áfram og líka svona snemma í röðinni. Við bara öskruðum mikið og hlógum og föðmuðumst.“ 

Eftir keppnina fóru Systur í fjöldann allan af viðtölum og síðan var haldinn blaðamannafundur þar sem allir þeir keppendur sem komust áfram sátu fyrir svörum. Einnig var dregið um hvort atriði sé í fyrri eða seinni hlutanum á laugardaginn og Ísland lenti í þeim seinni, sem almennt er talinn vera sá betri. 

Vel var tekið á móti íslenska hópnum þegar þau renndu í hlað eftir kvöldið. „Þetta var klukkan eitt, við héldum jafnvel að við mættum ekki vera með nein læti en nei nei, þá var hótelið bara með drekkhlaðið borð af veitingum,“ segir Gísli Marteinn. „Þau biðu eftir okkur og Felix hélt mjög góða ræðu og Sigga hélt smá ræðu fyrir hönd þeirra Systra. Svo var skálað og hlegið og dansað fram á rauða nótt.“  

Mistök að hefja kvöldið á tali 

Nú fær íslenski hópurinn smá hvíld þó enn sé mikið að gera, þau þurfa að mæta í viðtöl og myndatökur og slíkt. En Gísli Marteinn sem er þulur í útsendingunni þarf að undirbúa sig fyrir seinni undanúrslitakvöldið sem haldið verður annað kvöld. Hann segir að í gærkvöldi hafi ákveðin mistök orðið þegar kvöldið var opnað með atriði þar sem þulur sagði frá smiðju drónans sem kynnti svo keppendur. „Þetta var mjög óvenjulegt því yfirleitt fáum við þrjátíu sekúndur af hljóði svo að kommentatorarnir frá hverju landi geti sagt eitthvað við sína áhorfendur. En það var ekki í gær og voru reyndar mistök,“ segir hann og bætir við að margir af kollegum hans hafi orðið reiðir yfir þessu. 

Íslendingarnir eru þó allir mjög glaðir og Gísli Marteinn þakkar fyrir alla þá hlýju sem Íslendingar hafa sýnt þeim. „Systkinin bara trúa ekki eigin augum og eyrum yfir hvað það er mikill og fallegur stuðningur að koma að heiman.“ 

Rætt var við Gísla Martein Baldursson í Morgunútvarpinu á Rás 2 og má hlusta á viðtalið í heild sinni í spilaranum hér að ofan. 

Ísland keppir í úrslitum Eurovision á laugardaginn á RÚV klukkan 19:00. 

 

Tengdar fréttir

Menningarefni

Tárvot systkin í skýjunum og þakka stuðninginn

Tónlist

Stórkostlegur flutningur Systra í Tórínó

Menningarefni

Talað frá Tórínó: Með hækkandi spennu og Tékki í boxi

Menningarefni

Beta auglýsir eftir löngu týndum draumaprins