Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Ein elsta álft Íslands drapst eftir árekstur í Wales

11.05.2022 - 08:15
Mynd með færslu
 Mynd: Rúnar Snær Reynisson - RÚV
Álft, sem var merkt á Íslandi fyrir nærri þremur áratugum, drapst eftir að hafa flogið á rafmagnslínu í Pembrokeskíri í Wales. Talið er að hún hafi verið á leiðinni til Íslands ásamt öðrum álftum þegar slysið varð.

Málið hefur vakið nokkra athygli á Bretlandi og bæði ITV og BBC hafa fjallað um það. Fyrrnefnda fréttastöðin segir álftina vera íslenska en BBC reynir að eigna Bretum hana. 

Álftin fannst nærri rafmagnslínum þann 1. apríl. Hún reyndist það illa slösuð að nauðsynlegt reyndist aflífa hana.  Við nánari athugun kom í ljós að fuglinn hafði verið merktur á Íslandi.

Með slíkum merkingum má fá upplýsingar um ferðir fugla og þær eru oft eina liðin til að komast að því hve fuglar ná háum aldri.  

Fram kemur á vef Náttúrufræðistofnunar Íslands að hefðbundnar merkingar byggjast á málmmerki með ágröfnu númeri sem er einstakt fyrir hvern fugl og heimilisfangi merkingarstöðvar.

Það reyndist því frekar auðvelt fyrir Náttúrufræðistofnun að finna út hver álftin væri þegar símtalið kom frá Bretlandi.  

Fuglinn reyndist hafa verið merktur hér á landi þegar hann var þriggja ára eða árið 1996.

Fram kemur í umfjöllun BBC að Náttúrufræðistofnun Íslands hafi tjáð Bretunum að þetta væri mjög nálægt því að vera elsta álft Íslands. Sú elsta er talin hafa náð 30 árum.

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV