Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Velta Íslendinga í útlöndum á „bullandi skriði“

10.05.2022 - 08:25
Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink RÚV - RÚV Anton Brink
Mikil aukning varð á erlendri kortaveltu í síðasta mánuði og var hún nánast sú sama og fyrir heimsfaraldur. Heildar kortavelta í síðasta mánuði jókst um tæplega 35 prósent á milli ára og verðbólga hefur þar töluverð áhrif. 

Heildar greiðslukortavelta í apríl sl. nam rúmum 94,5 milljörðum kr. og jókst um 34,8 prósent á milli ára. Sigrún Ösp Sigurjónsdóttir, forstöðumaður Rannsóknaseturs verslunarinnar, segir að aukning ferðamanna hafi þar áhrif og kaupmáttur hafi aukist töluvert að síðasta ári, þó dregið hafi úr honum í byrjun árs. 

„Það virðist vera sem fólk hafi töluvert meira á milli handanna núna heldur en það hafði í fyrra og er að eyða í meira magni með kortunum sínum heldur en það gerði í fyrra. Það er hins vegar ekki mikil breyting á milli mánaða sem segir okkur kannski að þessar breytingar sem Seðlabankinn er búinn að grípa til séu farnar að hafa einhver áhrif,” segir Sigrún.

Kortavelta Íslendinga hérlendis nam tæplega 80,5 milljörðum kr. í apríl sl. og jókst um 19,6 prósent á milli ára miðað við breytilegt verðlag. Þá nam kortavelta erlendra ferðamanna rúmum fjórtán milljörðum í apríl og var 14,9 prósent af heildarkortaveltu á Íslandi. Það er svipað og hún var í apríl 2019, fyrir heimsfaraldur, þegar hlutfallið var 18,6 prósent. 

„Sama segir um veltu Íslendinga í útlöndum, hún er á bullandi skriði.“

Ferðamenn frá Bandaríkjunum voru ábyrgir fyrir tæplega 40 prósent af allri erlendri kortaveltu hérlendis í síðasta mánuði og þar á eftir koma Bretar með 12 prósent og Þjóðverjar með 6,7 prósent. Aðra sögu eru að segja af rússneskum ferðamönnum.

„Rússneskir ferðamenn virðast bara vera nánast horfnir, velta á milli ára fer næstum því 100 prósent niður, eða 99 prósent samdráttur í veltu rússneskra ferðamanna milli ára,” segir Sigrún.

sunnaks's picture
Sunna Karen Sigurþórsdóttir
Fréttastofa RÚV