Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Öryggisráðið hyggst funda um mannúðarmál í Úkraínu

epa04865564 General view of the United Nations Security Council (UNSC) during a vote on the situation in the Ukraine and Malaysia Airlines Flight 17 at the UN headquarters in New York, USA, 29 July 2015. Russia vetoed a UN Security Council resolution
Frá fundi í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna. Mynd: EPA
Til stendur að efna til opins fundar í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna á fimmtudag. Tilgangur fundarins er að ræða hnignandi stöðu mannúðarmála í tengslum við stríðsátökin í Úkraínu.

Fulltrúar Frakklands og Mexíkó kölluðu eftir að af fundinum yrði, þeim sextánda eftir að Rússar réðust inn í Úkraínu 24. febrúar. Fundirnir eru hluti þess þrýstings sem vesturveldin vilja beita Rússa en þeir geta í ljósi fastastöðu sinnar í öryggisráðinu stöðvað framgang allra ályktana þess.

Þess hefur verið farið á leit við samhæfingarskrifstofu aðgerða Sameinuðu þjóðanna í mannúðarmálum að gefa upplýsingar um stöðu mannúðarmála í Úkraínu og Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna sömuleiðis.

Samdægurs fer fram sögulegur fundur mannréttindaráðs Sameinuðu þjóðanna í Genf um um sama mál. Úkraínumenn báðu um að ráðið kæmi saman meðal annars vegna sprengjuárásar á skóla í austanverðri Úkraínu sem varð 60 almennum borgurum að bana.

Öryggisráðið hefur lýst fullum stuðningi við tilraunir Antonios Guterres, aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna, við að finna friðsamlega lausn á stríðinu í Úkraínu.