Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Olíubann mögulega samþykkt fyrir vikulok

epa09936466 A handout photo made available by the Hungarian PM's Press Office shows Hungarian Prime Minister Viktor Orban (R) as he receives European Commission President Ursula von der Leyen (L) outside the Hungarian PM's office in Budapest, Hungary, 09 May 2022.  EPA-EFE/Vivien Benko Cher / Hungarian PM's Press Office HANDOUT HUNGARY OUT HANDOUT EDITORIAL USE ONLY/NO SALES
Ursula von der Leyen og Viktor Orban ræddu olíuinnflutningsbannið á fundi í Búdapest. Mynd: EPA-EFE - Fréttaþjónusta ungverska fors
Samkomulag kann að vera að nást meðal leiðtoga Evrópusambandsins um að hætta innflutningi á rússneskri olíu fyrir árslok. Innflutningsbannið er hluti af refsiaðgerðum gegn Rússum vegna innrásar þeirra í Úkraínu fyrr á árinu. Ungverjar hafa eindregið lýst sig andvíga banninu.

Clément Beaune, evrópumálaráðherra Frakklands, greindi frá því í dag í sjónvarpsviðtali að samkomulag næðist hugsanlega fyrir lok þessarar viku. Að hans sögn ætlar Emmanuel Macron forseti að ræða í dag við Viktor Orban, forsætisráðherra Ungverjalands, og kynna honum nýjar hugmyndir til að leysa deiluna.

Innflutningsbannið sem ágreiningur er um er hluti af sjötta refsiaðgerðapakka Evrópusambandsins gagnvart Rússum. Nokkur ríki hafa lýst yfir efasemdum um að þau geti flutt inn olíu í stað þeirrar rússnesku og Viktor Orban hefur alfarið lýst sig andvígan innflutningsbanni.

Ursula von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, átti fund í gær með Orban í Búdapest í von um að geta leyst úr flækjunni. Hún sagði á Twitter í gærkvöld að nokkur árangur hefði náðst, en enn vantaði nokkuð á að samkomulag væri í höfn. Peter Szijjarto, utanríkisráðherra Ungverjalands, tók undir á samfélagsmiðlum að nokkuð hefði miðað í gær, en ekki kæmi til greina að velta kostnaðinum af refsiaðgerðum gegn Rússum yfir á ungverskan almenning.

Von der Leyen sagði í síðustu viku að stöðva yrði innflutning á olíu frá Rússlandi. Það gengi ekki að Evrópusambandsríki héldu áfram að dæla peningum inn í rússneska hagkerfið.

asgeirt's picture
Ásgeir Tómasson
Fréttastofa RÚV