Nýtt met og maðkur í mysunni

Mynd: RÚV/Ingvar Haukur Guðmundsson / RÚV

Nýtt met og maðkur í mysunni

10.05.2022 - 17:00

Höfundar

Rappararnir Daniil og Joey Christ áttu helgina á Spottanum og slógu þar nýtt met en eitt og annað merkilegt kom líka út síðastliðna viku. Þar má nefna slagara frá Moses Hightower ásamt Prins Póló, Írafári, Hákoni, Sexy Lazer, Nátttrölli og Virgin Orchestra.

Daniil, Joey Christ – Ef þeir vilja beef

Lagið Ef þeir vilja beef, með rapparanun Daniil ásamt Joey Christ, sem kom út á föstudag var spilað 50.000 sinnum fyrsta sólarhringinn á streymisveitunni Spotify, sem er met. Til að finna sambærilegan árangur þarf að fara aftur til ársins 2017 þegar B.O.B.A. með JóaP og Króla kom út og gerði allt vitlaust.


Moses Hightower, Prins Póló – Maðkur í mysunni

Jazz-hundarnir í Moses Hightower bjóða upp á Maðk í mysunni í þetta skiptið í samstarfi við Prins Póló sem vinnur þessa dagana að nýrri plötu sem kemur út fljótlega.


Hákon – Hvítir draumar

Tónlistarmaðurinn Hákon Daníelsson hefur sent frá sér nokkra slagara undanfarin ár sem hafa náð í gegn. Þeirra stærstir kannski Limbó og Týndur tími. Nú sendir hann frá sér lagið Hvítir draumar sem ber öll hans helstu höfundareinkenni.


Sexy Lazer – Fluting In Space

Tónlistarmaðurinn Jón Atli Helgason hefur verið búsettur í Kaupmannahöfn undanfarin ár og haldið gangandi tónlistarverkefni sínu Sexy Lazer sem er kannski þekktast fyrir endurhljóðblöndun á lagi Prins Póló, Niðrá strönd. Nú sendir hann frá sér þröngskífuna Mr Lava Lava sem inniheldur lagið Fluting In Space.


Írafár – Á nýjum stað

Hljómsveitin Írafár laumar öðru hverju út nýju lagi og það nýjasta er Á nýjum stað. Lagið er eftir Vigni Snæ Vigfússon og textinn eftir Birgittu eins og stundum áður en hljómsveitin hefur verið nokkuð iðin við tónleikahald síðustu misserin.


Nátttröll – Debuging Blues

Nátttröll er hópur fólks sem spilar aðallega eigin lög, hljóðritar og gefur út en kemur einstaka sinnum fram opinberlega ef þannig stendur á. Lagið Debuging blues segja þau að lýsi klemmunni sem forritari sé í þegar hann þarf að sjá um viðhald á stóru tölvukerfi.


Virgin Orchestra – On Your Knees

Lagið On Your Knees var samið af hljómsveitinni Virgin Orchestra sem spilar að eigin sögn tilraunakennt post-punk. Meðlimir hljómsveitarinnar eru Starri Holm sem spilar á gítar, Stefanía Pálsdóttir sem syngur og spilar á bassa og Rún Árnadóttir á selló.