Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Musk vill hleypa Trump aftur á Twitter

10.05.2022 - 22:19
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Athafnamaðurinn Elon Musk segist ætla að opna aftur Twitter-reikning Donalds Trumps, fyrrverandi Bandaríkjaforseta, verði úr kaupum hans á samfélagsmiðlinum. Musk sagði í erindi á ráðstefnu í dag að það hefði verið siðferðislega röng ákvörðun og afskaplega heimskuleg að banna Trump að nota Twitter.

Þá sagði Musk að það ætti að heyra til undantekninga að loka fyrir aðgengi að miðlinum og ætti aðeins að gilda um svindreikninga og reikninga gervimenna. Twitter lokaði reikningi Trumps í janúar í fyrra og var ástæðan að forsetinn fyrrverandi hefði hvatt til ofbeldis þegar hópur fólks réðst inn í bandaríska þinghúsið. Musk sagði að með banninu hefði Twitter gert stóran hóp þjóðarinnar fráhverfan samfélagsumræðunni og lokað fyrir skoðanaskipti. 

Bannið hefði ekki orðið til þess að þagga niður í Trump. Musk telur að niðurstaðan hafi verið verri en ef allir hefðu getað skipst á skoðunum á einum sameiginlegum vettvangi.