Kepptu fyrir Íslands hönd í fjármálalæsi

10.05.2022 - 11:44
Mynd með færslu
 Mynd: Grunnskóli Fjallabyggðar - RÚV
Nemendur Grunnskóla Fjallabyggðar kepptu í dag fyrir Íslands hönd í Evrópukeppni í fjármálalæsi. Skólinn vann sér inn þátttökurétt á mótinu með því að vinna Fjármálaleikana fyrr á árinu. Stærðfræðikennari krakkanna er gríðarlega stolt af sínu fólki.

Unnu sér inn þátttökurétt

Fyrr á þessu ári komu nemendur í 10. bekk Grunnskóla Fjallabyggðar, sáu og sigruðu Fjármálaleikana. Leikarnir, sem eru spurningakeppni milli grunnskóla í fjármálalæsi, eru haldnir ár hvert meðal unglinga.  Auk þess að vinna 150 þúsund krónur tryggði sigurinn skólanum þátttökurétt í Evrópukeppni Fjármálaleikanna. Keppnin fór fram í gegnum netið og tóku tveir fulltrúar úr bekknum þátt í leikunum nú í morgun.

Krakkarnir tilbúnir í alvöruna

Stærðfræðikennari unglingadeildar, Sigurlaug Ragna Guðnadóttir, kennir krökkunum fjármálalæsi. „Okkur gekk rosalega vel, þau voru með 19 rétt svör af 21. Lentu reyndar ekki í neinu verðlaunasæti en þau stóðu sig hrikalega vel,“segir Sigurlaug. 

Hvað er það við krakkana í Fjallabyggð sem gerir það að verkum að þau eru svona seig í lánum og vöxtum?

„Þau standa vel saman og þau hjálpast að. Keppnin snýst mikið um að vinna vel saman og afla sér upplýsinga og þau gerðu það svo sannarlega.“

Þannig að þau ættu að vera tilbúin að fara út í lífið og taka verðtryggð eða óverðtryggð húnsæðislán?

„Já það hlýtur að vera.“