„Ísland verður í 10. og síðasta umslaginu í kvöld“

Eurovision 2022 fer fram í Tórínó á Ítalíu. Systur keppa fyrir Íslands hönd.
 Mynd: EBU

„Ísland verður í 10. og síðasta umslaginu í kvöld“

10.05.2022 - 09:23

Höfundar

Fyrsti keppnisdagur í Tórínó er runninn upp, bjartur og fagur. Í kvöld stíga 17 lönd á stóra sviðið í PalaOlimpico og freista þess að komast í úrslit Eurovision næstkomandi laugardag. Líklega vita það allir en ég segi það samt: Ísland keppir í kvöld, númer 14 í röðinni. Í seinni undanúrslitum á fimmtudag keppa svo 18 lönd um tíu sæti. Við hverju má búast? Hverju á að taka eftir? Hvaða lönd fara áfram? 

Venju samkvæmt hefur sérleg greiningardeild verið tilkölluð til þess að fara almennilega yfir lögin í kvöld. Greiningardeildin er að þessu sinni skipuð Laufeyju Helgu Guðmundsdóttur stjórnarmanni í FÁSES og Peter Fenner, sérlegum aðdáanda Eurovision og Íslands í keppninni. Þau fara skipulega yfir öll framlögin og spá svo fyrir um hvaða tíu lög komast upp úr riðlinum í kvöld. 

Áður en lengra er haldið tekur Laufey fram að eftir að hafa horft á brot úr æfingum landanna í kvöld standi þessi þessi fyrri riðill nú tæplega undir því að vera nefndur dauðariðillinn! En við sjáum hvað setur, vindum okkur í lög og lönd kvöldsins. 

ALBANÍA 
„Umtalaðasti Eurovision-keppandinn til þessa vegna ætlaðrar tilraunar EBU til að ritskoða kynsvall Ronelu á sviðinu, klofgrip og sviðsett munnmök samkynja einstaklinga. EBU hafði víst ekki erindi sem erfiði svo þetta verður æsandi, og ef til vill ekki mjög fjölskylduvæn byrjun á Eurovision-keppninni 2022. Í leiðinni reynir Ronela að setja met í fjölda laga í einu Eurovision-framlagi,“ segir Laufey glettin en spáir því að Ronela fljúgi í úrslitin. Peter aftur á móti hefur ákveðið prinsipp varðandi konur sem sveifla jafnvoldugu hártagli og söngkonan gerir á sviðinu, nei í alvöru, það er þess virði að taka eftir því. „Það er hreint ekki sniðugt að setja sig upp á móti þannig týpum þannig að ég mun ekki tjá mig frekar um lagið,“ segir hann sposkur. 

LETTLAND
Bæði Peter og Laufey líkja lettneska framlaginu við Pollapönkara, þeim svipar allavega til þeirra í litríkum jakkafötum á sviðinu. „Sá síðasti sem var jafn grænn og söng um jafngrænan lífsstíl var froskurinn Kermit. En að öllu gamni slepptu er nú loks hægt að stroka munngælur fyrir konur út af lista yfir umfjöllunarefni Eurovision-laga,“ segir Peter. Laufeyju þykir framlagið gamaldags „þar sem áhorfendur eru hvattir til að gerast vegan, sem allir hljómsveitarmeðlimir eru, stunda bíllausan lífsstíl, nota fjölnota poka, borða salat og kisur.“ Já, kisur, þið heyrðuð þetta rétt. „Þeim er síðan snarlega slaufað í næstu línu þegar þeir tilkynna að salatið og kisurnar verði að framreiða ferskt.“

Eurovision 2022 fer fram í Tórínó á Ítalíu. Systur keppa fyrir Íslands hönd.
 Mynd: EBU
Lettarnir gefa allt í sviðsframkomuna. Hressari menn eru vandfundnir.

LITHÁEN
„Monika Liu syngur fyrsta framlag Litháa síðan 1994 sem er alfarið á litháísku. Það er það áhugaverðasta við þessa útvötnuðu útgáfu af Sjúbídú, íslenska Eurovision framlaginu 1996. Næsti!“ Laufey er sem sagt alveg grjóthörð hérna en hvað segir Peter? „Ég er mjög hrifinn af þessu þannig að þetta kemst pottþétt ekki áfram. Flott laglína og ef hún er að syngja um innra sálarstríð, eins og flestir aðrir keppendur, er ég mjög feginn að skilja það ekki af því það er á litháísku!“

SVISS
„Eitt það besta í riðlinum og eitt besta lagið í allri keppninni,“ segir Peter og bætir við að tónlistarlega séð minni það hann á Ninu Simone. Laufey er eitt hundrað prósent á annarri skoðun. „Marius Bear flytur langsamlega versta lagi í Eurovision í ár með úreldum texta og klisjukenndri sviðsetningu. Til að toppa þetta gerir hann um leið atlögu að því að vera útnefndur verst klæddi keppandi í tískuparadísinni Ítalíu. Ég hef sett hraðamet í hve fljótt ég get hoppað yfir þetta lag á spilunarlistanum - stolt af því!“

SLÓVENÍA
„Menntaskólakrakkarnir í Síðustu pizzasneiðinni (Last Pizza Slice = LPS) komu með kennarann með sér til Tórínó, risastóra diskókúlu og dillandi skemmtilegt lag. Þau minna mig á Retro Stefson á upphafsárum bandsins í Austurbæjarskóla!“ segir Laufey frekar jákvæð. Peter vill lítið segja um lagið en er heillaður af diskókúlunni rétt eins og Laufey enda er hún risastór. „Stærsta diskókúla frá því Solayoh frá Hvíta Rússlandi klifraði upp úr stórri kúlu í keppninni 2013.“ Það er nefnilega það.

ÚKRAÍNA
„Þetta lag er dálítið útum allt og erfitt að ímynda sér að nokkur manneskja fíli það allt sem heild, en að sjálfsögðu skiptir það engu máli í tilfelli Úkraínu í ár,“ segir Peter um úkraínska lagið sem er spáð sigri næstkomandi laugardag. „Kalush Orcestra, með þessa þjóðlegu rappvögguvísu um móður eins hljómsveitameðlima, munu að öllum líkindum sigra símakosningu þessa árs og líkur eru á að dómnefndirnar heillist líka því sviðsetning lagsins er guðdómleg og lætur engan ósnortinn,“ segir Laufey okkar. 

Eurovision 2022 fer fram í Tórínó á Ítalíu. Systur keppa fyrir Íslands hönd.
 Mynd: EBU
Þjóðlegra áhrifa gætir í úkraínska laginu í bland við rapp.

BÚLGARÍA
„Klisja ársins! Endurvinnsla Búlgara í ár ætti að fá hringrásarverðlaun ársins svo útvatnað er það.“ Þetta er dómur Laufeyjar og Peter er henni sammála. Hann bætir samt við að það sé í raun skylda að hafa eitt pabbarokkmetallag í Eurovision á hverju ári með flugeldum og tilheyrandi.

HOLLAND
„Það er gaman að heyra aftur hollensku síðan 2010, blessunarlega kemur ekki grínatriði í ár og þetta flýgur líklega áfram þó ég væri alveg til í að pressa jakkann hennar aðeins betur,“ grínast Peter. Laufey útskýrir að fyrst Holland hélt keppnina í fyrra, hafi þeir engu að tapa í ár. „Senda unga og upprennandi söngkonu með eitursvalt lag með heilalímsviðlagi.“ Það má alveg bæta því við að S10, söngkonan hollenska er algjör stjarna í heimalandinu og hefur vakið mikla athygli í Tórínó fyrir einlægni í viðtölum og að vera mjög smart.

Eurovision 2022 fer fram í Tórínó á Ítalíu. Systur keppa fyrir Íslands hönd.
 Mynd: EBU
S10 er einstakleag svöl.

MOLDÓVA
„Harmonikkupopplag um litlu lestina sem brunar frá Chișinău í austri til Bucharest í vestri og er táknmynd fyrir von um sameiningu Rúmeníu og Moldóvu í eitt ríki en þannig gæti það síðarnefnda notið góðs af ESB- og NATO aðild Rúmena andspænis stríðsherranum Pútín. Þó sviðsetning og nýleg breyting lagsins valdi vonbrigðum held ég að þetta komist áfram,“ segir Laufey um moldóvska framlagið. Peter útskýrir að hljómsveitin Zdub Si Zdub hafi haft meira en 20 ólíka liðsmenn í bandinu á síðustu þremur áratugum og reynslumiklir eftir því. Að öðru leyti hefur hann ekki mikið um lagið sjálft að segja.

PORTÚGAL
Enn á ný er greiningardeildin okkar fullkomlega ósammála. Peter þolir ekki portúgalska framlagið, finnst vonbrigði að enska læðist inn í textann, umfjöllunarefnið klisjukennt og lagið yfir höfuð drungalegt. Laufey hins vegar fílar það, alveg í botn. „Maro bókstaflega dáleiðir áhorfendur með þessu einlæga fadóskotna indípoppi sem er tileinkað afa hennar. Svo er mikill Eurovision-andi í því að taka með sér andstæðingana úr Festival da Canção og gera þá að bakröddum sínum í Tórínó.“

Mynd með færslu
 Mynd: EBU
Maro hefur seiðandi sviðsframkomu sama hvað Peter segir.

KRÓATÍA
Loksins kemur framlag sem þau Peter og Laufey geta verið sammála um en hvorugt þeirra er hrifið af Króatíu. „Mest pirrandi og óþarfasta dansrútína í sögu Eurovision!“ fullyrðir Peter. Laufey segir það óeftirminnilegt og bara vekja upp söknuð eftir þvottekta balkanballöðu. 

DANMÖRK
„Danska atrennan að kvenkyns Måneskin-eftirhermu sem mistekst herfilega. Kemst ekki áfram enda munu Íslendingar ekki kjósa lagið því við eigum harma að hefna eftir EM handboltaskúffelsið í upphafi árs,“ fullyrðir Laufey. Peter er heldur ekki hrifinn. „Úrval af örvæntingarfullum flugeldum til að reyna að peppa upp lag sem gerir ekki neitt,“ útskýrir hann.

Eurovision 2022 fer fram í Tórínó á Ítalíu. Systur keppa fyrir Íslands hönd.
 Mynd: EBU
Það er óneitanlega mikil orka í danska laginu með hljómsveitinni Reddi.

AUSTURRÍKI
Peter hefur áhyggjur af rödd Piu Mariu, sem hefur verið dálítið veik þessa vikuna. „En hún reynir að fá okkur til að gleyma því með öllum ljósunum, reyknum og eldinum. Allavega eitthvað til að dansa við,“ segir hann. Laufey ber upp sinn dóm. „Annað af tveimur EDM-lögum keppninnar og hittir alla táninga níunnar beint í hjartastað. Því miður veldur Pia ekki laginu og því kemst það ekki áfram. “

ÍSLAND
„Bæði Ísland og Eistland koma með smá Texas í keppnina í ár. Þægilegt, melódískt og flott sviðsett. Sem betur fer hefur svarta sólin, sem er stopp eins og hálfmáni á sviðinu, engin áhrif á íslenska atriðið,“ segir Peter. Ísland sendir álfakántrí í keppnina í ár, að mati Laufeyjar. „Úthugsuð sviðsetning sem rammar inn örugga og hlýja sviðsframkomu Systra.  Ég fæ svo gott í hjartað við að horfa á atriðið og þær hafa sett mikilvæg mál á dagskrá sem standa mér nærri. Ísland verður að finna í 10. og síðasta umslaginu sem verður lesið upp í kvöld!“ 

GRIKKLAND
„Eitt af dramatískum lögum þessa árs með þungan boðskap sem gæti átt heima í herferð Stígamóta um sjúka ást. Sviðsetning lagsins og flutningur Amöndu er aftur á móti upp á 12 stig svo það eru engar líkur á að þetta komist ekki í aðalkeppnina,“ segir Laufey. Peter er henni sammála en tekur það samt fram að mjög lítið grískt sé að finna í laginu.

Eurovision 2022 fer fram í Tórínó á Ítalíu. Systur keppa fyrir Íslands hönd.
 Mynd: EBU
Amanda er fantagóð söngkona.

NOREGUR
„Þetta er í fyrsta skipti sem enginn veit hver flytur atriði í Eurovision og líka fyrsta lagið í keppninni um banana. Ég væri líka bara sáttur ef þetta væri það síðasta. Og eins og við vitum, þá eru siguratriðin aldrei klædd í gult!“ segir Peter. Laufeyju finnst norska lagið snilldarlega vel samið, sviðsett dansnúmer í brandarabúningi. „Skilaboð textans hafa verið nokkuð á reiki en hvort sem lagið er um ömmuklám, Covid-19 þar sem bóluefnið er bananinn, eða nýjustu markaðsherferð Chiquita, komast allir í stuð!“

ARMENÍA
„Grípandi þjóðlagakántrí með áhugaverða sviðsetningu þar sem allur klósettpappírinn sem Armenar keyptu í Covid-hamstrinu eru í forgrunni. Kemst áfram og gæti verið fagri blakkur þessa árs,“ segir Laufey. Peter beinir sjónum að sviðsetningunni. „Ef einhver hefur þráð að eyða þremur mínútum í að sjá stelpu rífa niður klósettpappír af stofuveggnum, þá er þetta fullkomið tækifæri til að lifa þann draum.“

Þá er tímabært að skoða hvaða tíu lönd komast áfram. Athugið að þrátt fyrir að vera með afar ólíkan smekk eru þau Laufey og Peter mjög sammála um hvaða lög fara áfram í lönd, aðeins á einum stað greinir þau á. Laufey telur að Lettar fari áfram meðan Peter spáir Sviss áfram í úrslitin.

SPÁ LAUFEYJAR UM FYRRI UNDANRIÐILINN: 
1. Albanía
2. Lettland
3. Úkraína
4. Holland
5. Moldóva
6. Portúgal
7. Ísland
8. Grikkland
9. Noregur
10. Armenía

SPÁ PETERS UM FYRRI UNDANRIÐILINN: 
1. Albanía
2. Sviss
3. Úkraína
4. Holland
5. Moldóva
6. Portúgal
7. Ísland
8. Grikkland
9. Noregur
10. Armenía

Tengdar fréttir

Menningarefni

Mistök við hljóðblöndun höfðu ekki áhrif á dómara

Menningarefni

Talað frá Tórínó: Með hækkandi spennu og Tékki í boxi

Menningarefni

„Þetta verður gæsahúðarmóment“

Menningarefni

Beta auglýsir eftir löngu týndum draumaprins